1.7 C
Selfoss

Glæsilegur árangur á GK móti í hópfimleikum

Vinsælast

Fimleikar Um helgina fór fram GK mót í hópfimleikum á Akranesi. Það var mikil eftirvænting fyrir mótinu hjá iðkendum og þjálfurum fimleikadeildar Selfoss en deildin átti í fyrsta skipti síðan árið 2016 keppendur í meistaraflokki. Selfoss skráði 3 lið til keppni, meistaraflokk kvenna, meistaraflokk mix og 2. flokk stúlkna. Undirbúningurinn hefur verið strembinn vegna covid og mikið um að iðkendur væru í sóttkví í janúar. Stundum voru aðeins 2-6 iðkendur á æfingum.

Á laugardag áttu meistaraflokkarnir að keppa en vetur konungur lét heldur betur finna fyrir sér og allar leiðir frá Selfossi voru lokaðar á laugardagsmorgun. Fimleikadeild Selfoss óskaði eftir því að mótshlutinn þeirri yrði færður. Fimleikasamband Íslands tók þá ákvörðun að keyra kvenna keppnina án okkar en færði mix hlutann yfir á sunnudag. Mikil vonbrigði voru hjá stúlkunum í kvennaliði Selfoss og þjálfurum að missa af sínu fyrsta móti í meistaraflokki. Þær sýndu hvað í þeim býr og tóku þá ákvörðun að keyra sínar æfingar hér heima og héldu sitt eigið heimamót og tóku það upp, ótrúlegur kraftur og jákvæðni sem einkennir þær. Hægt er að nálgast upptökuna inni á facebook síðu fimleikadeildarinnar. Æfingar þeirra voru stórglæsilegar og verður spennandi að fylgjast með þeim á næstu mánuðum. 

Mix liðið mætti til keppni á sunnudag en ekkert annað lið var skráð í flokkinn. Mix liðið er ungt og efnilegt og sýndi flottar æfingar á öllum áhöldum. Liðið fékk 15,765 stig á gólfi, 12,565 stig á dýnu og 12,665 stig á trampólíni og fékk gull um hálsinn með samtals 40,580 stig. 

Meistaraflokkarnir vilja koma á framfæri þakklæti til styrktaraðila sinna. Hægt er að fylgjast með hópunum á Instagram @selfoss.mfl.mix og @selfoss.mfl.kvk 

2. flokkur keppti á sunnudeginum. Stúlkurnar voru að stíga sín fyrst skref í 2. flokki og eru með ungt og efnilegt lið en þær eru flestar á yngra ári í flokknum og nokkrar sem ættu að vera á eldra ári í 3. flokki. Þær stóðu sig vel og unnu trampólínið sem er virkilega góður árangur því þar voru þær að prófa mörg ný stökk. Stúlkurnar enduðu í 4. sæti á mótinu en þær voru aðeins 0,42 stigum frá 3.sætinu. Á gólfi fengu þær 16,630 stig (6. sæti), á dýnu 15,430 stig (3. sæti) og á trampólíni 14,815 stig (1. sæti), samtals 46,875 stig. 8 lið kepptu í flokknum. 

Fimleikadeild Selfoss er stolt af sínu fólki og það verður spennandi að fylgjast með keppninni í vetur eftir góðan árangur á fyrsta móti. Næsta mót hjá þessum hópum verður 26. – 27. febrúar en þá fer fram bikarmótið í hópfimleikum. 

Nýjar fréttir