-10.3 C
Selfoss

Framtíðarhúsnæði BES á Eyrarbakka

Vinsælast

Guðmundur Ármann

Eitt mikilvægasta verkefni fræðsluyfirvalda í Árborg er að leysa þann vanda sem upp er kominn í húsnæðismálum BES á Eyrarbakka. Fyrir liggur úttekt Eflu verkfræðistofu um að núverandi húsnæði BES á Eyrarbakka er heilsuspillandi og ekki hæft til notkunar. Við þeirri stöðu var brugðist hratt af bæjaryfirvöldum og skólahúsnæðinu lokað án tafar. Skólahald er því nú í tveimur húsum á Eyrarbakka á meðan unnið er að bráðabirgðalausn og teknar ákvarðanir um næstu skref.

Það er ekki annað í stöðunni en að koma upp bráðabirgðahúsnæði á Eyrarbakka fyrir starfsemi BES og á sama tíma að hanna og byggja upp framtíðarhúsnæði fyrir BES á Eyrarbakka.

Það er mikilvægt að unnið verði í senn hratt og faglega að næstu skrefum, þannig að nemendur, kennarar, annað starfsfólk og stjórnendur komist sem fyrst í varanlegt og gott húsnæði á Eyrarbakka. 

Bæjarfulltrúar munu á næstunni þurfa að meta valkosti og taka ákvarðanir sem skipta munu gríðarlega miklu máli fyrir nemendur, skólafólk sem og samfélagið allt. 

Á Eyrarbakka er valkostur til staðar sem gæti verið framtíðarlausn á húsnæðismálum BES á Eyrarbakka. Það er svo nefnt hús Fiskivers. Sú starfsemi sem þar hefur verið síðustu ár hefur verið flutt og því stendur húsið autt. Húsið er stórt, lítið stúkað niður og bíður upp á fjölda möguleika. Klókur arkitekt ætti auðvelt með að vinna með þetta rými. Opna það með fjölgun á gluggum og að fá þannig meiri birtu inn í rýmið með tilliti til breyttrar notkunar, auk þess að vinna með innra skipulag þannig að úr verði nútímaleg og góð rými fyrir skólahald.

Núverandi húsnæði BES á Eyrarbaka, það er skólabygging og útistofur eru samtals 892 fm. Húsnæði Fiskivers er 1.600 fm. Hið nýja húsnæði dugar því til að byggja rúmgóðan og nútímalegan skóla sem getur á auðveldan hátt tekist á við stöðugt vaxandi íbúafjölda á Eyrarbakka og Stokkseyri. 

Að sjálfsögðu byggir þessi hugmynd á því að hægt sé að semja um kaup á umræddu húsnæði. Tímasetningin er góð, þar sem bæjarfélagið vantar húsnæði fyrir skólann og húseignin auð og fer væntanlega á sölu fljótlega. 

Þessi breyting myndi auk þess bæta mjög ásýnd Eyrarbakka. Sérstaklega þegar komið er inn í þorpið. Þar sem komið yrði að fallegu skólahúsnæði með lifandi og skapandi starfi. 

Lóð Fiskivers er ágætlega stór og getur með sóma boðið bæði upp á stækkun á húsnæðinu gerist þess þörf í framtíðinni sem og verið skólalóð með öllu því sem þarf og á að vera á slíkri lóð. Hægt er t.d. að loka vegstubb ofan við húsnæðið að sjó til að nýta enn betur lóðina og skapa betri aðstöðu og þá sérstaklega þegar Björgunarsveitin flytur sig um set. 

Stutt verður fyrir nemendur að ganga yfir í samkomuhúsið Stað, þar sem íþróttakennsla fer fram. Staðsetningin bíður einnig upp á fjölda tækifæra í nútíð og framtíð, sem gæti verið mjög spennandi að þróa. 

Héraðsnefnd Árnessýslu hefur nýlega og með miklum myndarbrag breytt svonefndu Alpan húsi, sem var orðið hrörlegt í glæsilega aðstöðu fyrir Byggðasafn Árnessýslu. Það hús er beint á móti því húsi sem hér er um rætt. Undirritaður veit ekki betur en að þær kostnaðaráætlanir sem gerðar voru varðandi þær miklu breytingar hafi staðist með ágætum. Það er því góð fyrirmynd fyrir framan okkur, bæði hvað varðar farsæla lausn og fyrirsjáanleika í kostnaði. 

Það er án nokkurs vafa fjárhagslega hagvæmt að leysa varanlega húsnæðisvanda BES á Eyrarbakka með þessum einfalda hætti. Auk þess mun þessi lausn sparar allan þann kostnað sem því fylgir að kaupa eða leigja bráðabirgðahúsnæði til lengri eða skemmri tíma. 

Það er raunhæft, verði gengið rösklega til verka að skólasetning í nýju og varanlegu húsnæði BES á Eyrarbakka verið næsta haust.

Guðmundur Ármann,
íbúi á Eyrarbakka

Nýjar fréttir