-6.1 C
Selfoss

Að ferðast aftur í tímann í gegnum bækur

Vinsælast

Árný Gestsdóttir er lestarhestur vikunnar.

Árný Gestsdóttir er 22 ára Þykkbæingur. Hún lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurlands árið 2018 og síðastliðið vor útskrifaðist hún með BA gráðu í mannfræði frá Háskóla Íslands. Síðustu ár hefur hún búið í Reykjavík ásamt kærasta sínum og starfar nú á leikskólanum Álfaheiði í Kópavogi. Árný stefnir á framhaldsnám í haust en sinnir nú helst áhugamálum sínum samhliða vinnu. 

Hvað bók ertu að lesa?

Ég er hægt og rólega að koma mér aftur í það að finna ánægjuna í lestrinum eftir þriggja ára bakkalárnám í mannfræði við Háskóla Íslands þar sem lestur gat tekið meiri orku frá mér heldur en hann gaf. Ég hef fært mig frá ættbálkum Tróbríanda yfir í ævisögur Íslendinga og þessa stundina er ég að lesa Játningar Láru miðils eftir Pál Ásgeirsson. Ég hafði áður heyrt um Láru og miðilsfundi hennar og hafði áhuga á að kynna mér þetta mál betur. Þetta er mjög beinskeytt og hreinskilin ævisaga unnin úr sjálfsævisöguhandriti Láru sjálfrar og öðrum heimildum, þar sem höfundur passar vel upp á gagnrýna hugsun lesendans. Það er þó ekki endilega Lára sjálf sem heldur athygli minni, heldur þjóðfélagslýsing höfundar á þessum tíma, það er eitthvað við það að ferðast aftur í tímann í gegnum bækur og sjá hlutina ljóslifandi fyrir sér.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Ég gríp mikið í sjálfsævisögur, mér finnst frekar mikilvægt að setja mig í spor annarra endrum og sinnum. Mér finnst líka mjög gaman að lesa eldri skáldsögur sem eiga að gerast jafnvel löngu áður en ég fæddist og rýna inn í forna tíma. En síðan hrífst ég líka til dæmis af stíl Hallgríms Helgasonar sem er samtímaskáld og hefur á síðustu árum einbeitt sér að skrifa skáldsögur sem eiga að gerast í fortíðinni. 

Fékkstu svokallað lestraruppeldi?

Ég hneigðist mjög ung til lestrar og vildi helst mæta læs fyrsta skóladaginn minn í grunnskóla. Mamma spilaði þar örugglega stórt hlutverk, en hún las alltaf einn og einn kafla fyrir mig fyrir svefninn, en ég var ekki lengi að taka yfir það hlutverk sjálf. Ég held að hún hafi þó verið þakklát fyrir það, því ég var mjög forvitin sem barn og því margar spurningar sem hún þurfti að svara á meðan lestrinum stóð. Ég man sérstaklega vel eftir því þegar hún las fyrir mig Sitji guðs englar eftir Guðrúnu Helgadóttur, en þær lestrarstundir gátu dregist mikið á langinn vegna vangaveltna ungrar stúlku. Ég tók kannski ekki eftir því þá en ég leitaði mikið í bækurnar hennar Guðrúnar. Í afahúsi var sérstaklega í miklu uppáhaldi og ég las hana oft og mörgum sinnum. Á milli þess sem ég las gamlar bækur frá foreldrum mínum var ég tíður gestur á bókasöfnum, en ég fæ enn þann dag í dag hlýtt í hjartað þegar ég finn lyktina í bókasafninu í Þykkvabænum – það er einhver ákveðin nostalgía sem fylgir lestrinum.

En hvernig myndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?

Sem barn og táningur hafði ég iðulega bók við höndina hvert sem ég fór en hægt og rólega fóru samfélagsmiðlar og hraði lífsins að taka yfir. Síðastliðin þrjú ár hafa vettvangsrannsóknir mannfræðinga sem bera heitið etnógrafíur átt hug minn allan. Fyrsta árið í mannfræðinni einkenndist mikið af lestri og ígrundunum á slíkum ritum. Þessar etnógrafíur geta verið mjög áhugaverðar og maður getur átt erfitt með að sleppa þeim. Ég segi ekki að þær hafi allar verið jafn skemmtilegar og alls ekki auðlesnar, en þær áhrifaríkustu eru einmitt þær sem þú þarft að lesa oft til þess að það kvikni á perunni. Í dag nota ég lesturinn sem ákveðna hugleiðslu og finnst mjög gott að leyfa huganum flakka meðan á lestrinum stendur. 

Einhverjir uppáhaldshöfundar?

Margrit Sandemo sem skrifaði bækurnar um Ísfólkið. Ástæðan er ekki flókin en hún var stór hluti af ákveðnu tímabili í lífi mínu. Ég var rétt 12 ára þegar ég byrjaði á fyrstu bókinni, en las alla seríuna í einum rykk. Ég náði líka að plata eina góðvinkonu mína með mér í lesturinn og við kepptumst hvor við aðra að klára til þess að geta rætt sögupersónur og söguþráð. Þessar 47 bækur eru að sjálfsögðu jafn misjafnar og þær eru margar, en það er bara eitthvað svo magnað við þennan heim sem Sandemo skapaði og enn í dag finnst mér gaman að grípa í eina og eina bók.

En hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Það er langt síðan ég man eftir að hafa verið rænd svefni af bók, en ég man oft eftir mér sem barni að gleyma stund og stað í heimi bókanna, enda barnabækur þær sem hrífa mann fyrst og sennilega mest.

En að lokum Árný, hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Ef ég væri rithöfundur þá myndi ég skrifa sögulega skáldsögu þar sem ég myndi drekkja mér í heimildum um ákveðinn tíma og stað og draga þannig upp raunsæjan sagnaheim sem auðvelt væri fyrir lesandann að tengja við.

Umsjón með Lestrarhestinum
hefur Jón Özur Snorrason.

Nýjar fréttir