-4.3 C
Selfoss

Vísinda- og rannsóknarsjóður Suðurlands styrkir tvö ný verkefni

Vinsælast

Á hátíðarfundi Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands þann 13. janúar síðastliðin voru veittir tveir styrkir fyrir árið 2022. Styrkina hlutu að þessu sinni Marco Mancini og Stephen J. Hurling. Fengu þeir hvor um sig 800.000 kr. styrk til doktorsverkefna sinna.

Í umsögn Sveins Aðalsteinssonar formanns stjórnar sjóðsins segir m.a. um doktorsverkefni styrkþega:
„Marco Mancini rannsakar hitakæra maura í verkefni sínu en hann fann nýlega nýja tegund Hypoponera eduardi á jarðhitasvæðum sunnanlands. Venjulegur húsamaur, Hypoponera ergatandria, finnst í híbýlum manna í Reykjavík og víðar á þéttbýlisstöðum og við Gunnuhver á Reykjanesi. Hin nýja tegund finnst hins vegar nær eingöngu á jarðhitasvæðum sunnanlands þ.e. í Reykholti í Biskupstungum, Hveragerði, Reykjadal í Ölfusi og við Geysi. Rannsóknaspurning Marco snýst um hvort hér sé um að ræða gest sem er líklegur til að nema land víðar og valda hugsanlegu tjóni á viðkvæmu lífríki eða hvort hér sé á ferð seigur landnemi sem hefur þraukað í margar aldir í skjóli jarðhita og beri því að vernda. Erfðaefni H. eduardi verður rannsakað, gerðar verðar atferlisathuganir á maurnum og útbreiðsla hans könnuð frekar. Útbreiðsla þessara maurategunda er líka fróðleg í ljósi hlýnunar loftslags eins og allar loftslagsspár kveða á um.“

„Stephen Hurling rannsakar tvær skyldar sjófuglategundir, þ.e. sjósvölu (Hydrobates leucorhous) og stormsvölu (Hydrobates pelagicus). Báðar tegundirnar lifa við Vestmannaeyjar og tilheyra hópi sjófugla sem eiga margir hverjir undir högg að sækja vegna loftslagshlýnunar, reyndar eru þær báðar á válista Náttúrfræðistofnunar vegna fárra varpstaða. Stephen hyggst nota nýja gerð af örsmáum staðsetningarbúnaði til að rekja ferðir þessara tegunda, bæði á varptíma og á farstöðvum sunnar í Atlantshafi. Rannsakað verður fæðuval, farhegðun og afkoma fuglanna. Niðurstöðurnar má nýta til að grípa til aðgerða til verndar þessum tegundum og hugsanlega fleirum sem búa við svipuð lífsskilyrði og eiga undir högg að sækja á tímum loftslagsbreytinga.

Hátíðarfundurinn fór að þessu sinni fram í fjarfundarbúnaði vegna sóttvarnareglna. Forseti Íslands hr. Guðni Th. Jóhannesson tók þátt í fundinum og ávarpaði fundarmenn, en hann hefur eins og fyrrverandi forseti ávallt stutt við bakið á sjóðnum og með nærveru sinni.

Það eru Fræðslunetið símenntun á Suðurlandi og Háskólafélag Suðurlands sem reka Vísindasjóð Suðurlands. Hann er fjármagnaður með frjálsum framlögum fjölmargra félaga, fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana um allt Suðurland. Vísindasjóður, sem er fjármagnaður með þessum hætti, er einstakur á landsvísu og því afar dýrmætur í sunnlenskri menntaflóru.

Nýjar fréttir