Þann 11. janúar sl. undirrituðu með sér SASS og Sinfóníuhljómsveit Suðurlands samning um áhersluverkefni Sóknaráætlunar Suðurlands. Mun styrkur SASS nema 2 m.kr. árið 2022 til að halda skólatónleika og kynna klassíska tónlist fyrir nemendum í grunnskólum á Suðurlandi. Með stuðningi sínum vill SASS auðga menningarlíf á Suðurlandi og skjóta frekari rótum undir starfsumhverfi klassískra tónlistarmanna á Suðurlandi.
Sinfóníuhljómsveit Suðurlands var stofnuð haustið 2020, hljómsveitarstjóri sveitarinnar er Guðmundur Óli Gunnarsson og Margrét Blöndal er framkvæmdarstjóri. Er þetta mikilvægt verkefni fyrir tónlistarskólana á svæðinu, og mun tilkoma hljómsveitarinna koma til með að breyta menningarlífi á Suðurlandi. Verkefnið mun efla samskipti og samvinnu við aðra tónlistamenn og listgreinar, sem og að bæta ímynd landshlutans, sjálfsmynd íbúanna, og stuðla að fjölbreytni.
Sumarið 2021 tók Sinfóníuhljómsveit Suðurlands þátt í Oddahátíð. Auk þess sem hún hélt 12 skólatónleika, sem er einn meginþáttur starfsins. Voru þessir tónleikar m.a. fjármagnaðir af SASS.
Við óskum Sinfóníuhljómsveitinni til hamingju með styrkinn og óskum þeim velfarnaðar á starfsárinu.
Af vef SASS