Eins og áður hafði komið fram mun Forvarnateymi Árborgar standa fyrir fyrstu Hinseginviku Árborgar í næstu viku, dagana 17. – 23. janúar, og munu grunnskólarnir í Árborg taka þátt.
Börnum í 7.-10. bekkjum skólans verður sýnt klukkustundar myndband frá Samtökunum ’78 í vikunni og umræður teknar með kennurum. Stefnt er á að fá einnig fræðslu frá Samtökunum ’78 inn í skólann um leið og ástand leyfir.
Forvarnateymi Árborgar, í samvinnu við Íslandsbanka mun einnig gefa öllum börnum í 1. bekk í Árborg bókina Vertu þú! sem segir litríkar sögur af fjölbreytileikanum og hvetur til fordómaleysis og víðsýni.
Allir krakkar eru síðan hvattir til að klæðast regnbogalitum í skólann, miðvikudaginn 19. janúar, og sýna þannig samstöðu og stuðning.