3.4 C
Selfoss

Karlaveldi í Héraðsnefnd Árnesinga

Vinsælast

Þessa dagana stendur yfir átak til vitundarvakningar um mikilvægi fjölbreytileika í sveitarstjórnum og er átakið í samstarfi Kvenréttindafélags Íslands, Jafnréttisstofu, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Fjölmenningarseturs, samgöngu og sveitarstjórnarráðuneytis og forsætisráðuneytis. Með átakinu vilja framangreindir aðilar hvetja til þess að á lista stjórnmálasamtaka veljist fjölbreytt fólk. 

Í Héraðsnefnd Árnesinga þarf verulegt átak til að rétta hlut kvenna en þar hefur kynjahlutfall aldrei verið jafnt og karlar hafa alltaf skipað meirihluta sæta nefndarinnar. Héraðsnefnd Árnesinga er byggðasamlag sveitarfélaga í Árnessýslu sem sér um rekstur safna sýslunnar, tónlistarskóla, brunavarna og almannavarna. Rekstrartekjur þessara stofnana héraðsnefndar árið 2020 námu rúmum 900 m.kr. og rekstrargjöld um 850 m.kr. Því er hér um stóra rekstrareiningu að ræða sem fer með mikilvæga málaflokka á sveitarstjórnarstignu. 

Samtals eiga sveitarfélögin átta í Árnessýslu 22 fulltrúa í héraðsnefnd og fer fjöldi fulltrúa eftir stærð sveitarfélaganna. Í framkvæmdastjórn, sem héraðsnefnd velur, sitja fimm fulltrúar. Í upphafi þessa kjörtímabils sátu 17 karlmenn á móti fimm konum í héraðsnefnd. Í framkvæmdastjórn voru í upphafi kjörtímabilsins fjórir karlmenn á móti einni konu. Á fundi héraðsnefndar sem haldinn var 25. október sl. breyttist þetta hlutfall með því að einn af þremur fulltrúum Sveitarfélagsins Ölfuss, sem var kona, hætti í héraðsnefnd. Ölfusingar völdu karl í staðinn. Þar með eru nú 18 karlmenn (82%) í héraðsnefnd á móti fjórum konum (18%). Og í framkvæmdastjórn sitja nú bara karlar en Ölfus átti einn fulltrúa í framkvæmdastjórn.

Ástæðu þessa skakka kynjahlutfalls í Héraðsnefnd Árnesinga má rekja til þess hvernig er raðað á lista stjórnmálasamtaka í kosningum þar sem í flestum tilfellum karlar leiða listana, auk þess hvernig sveitarstjórnarfulltrúar í hverju sveitarfélagi velja í héraðsnefnd en þar virðist vera tilhneiging til að velja fremur karla en konur í nefndina.

Á fundi Héraðsnefndar Árnesinga í október síðastliðnum lagði ég því fram eftirfarandi tillögu sem var samþykkt samhljóða:

„Haustfundur Héraðsnefndar Árnesinga hvetur stjórnmálasamtök sem bjóða fram í sveitarstjórnarkosningum árið 2022 til að gæta að jöfnum kynjahlutföllum á listum og í framhaldinu við val fulltrúa í Héraðsnefnd Árnesinga með það að markmiði að sem jafnast hlutfall kynjanna verði í fulltrúaráði, nefndum og stjórnum héraðsnefndar.“

Nú þegar stjórnmálasamtök eru farin að huga að því að velja einstaklinga á framboðslista fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor er rétt að taka undir hvatningarorð um fjölbreytt val fólks á listana. Jafnframt að við sem störfum í stjórnmálum setjum okkur það markmið að hlutfall kynja verði jafnt í sveitarstjórnum og öllu samstarfi sveitarfélaga í Árnessýslu, þ.m.t. í Héraðsnefnd Árnesinga. Vinnan við að ná því markmiði hefst við röðun á lista stjórnmálasamtaka.

Kynjahlutfall Héraðsnefnd Árnesinga

Njörður Sigurðsson
bæjarfulltrúi Okkar Hveragerðis.

Nýjar fréttir