-1.6 C
Selfoss

Heklaðir sokkar

Vinsælast

Nýtt ár er gengið í garð og við í Hannyrðabúðinni þökkum innilega viðskiptin í gegnum árin og hlökkum til endurfunda. 

Janúar er oft kaldur og þá er fátt betra en að eiga góða sokka. Í dag leikum við okkur með nýtt garn frá Permin sem er alveg í takt við nýja tíma. Það heitir Dagmar og er endurunnin ull með sokkastyrkingu. Garnið er lungamjúkt og fæst í nokkrum fallegum litum.

Uppskriftin er í þremur stærðum sem henta fótastærðum 38-40-42 en auðvelt er að fækka eða fjölga lykkjum eftir hentugleika.

Efni:

 2-2-3 dk Dagmar, heklunál nr 4, 2 prjónamerki.

Skammstafanir: ll-loftlykkja, fl-fastalykkja, kl-keðjulykkja.

Þegar lykkjum er fækkað eru 2 lykkjur heklaðar saman þannig að bandið er fyrst dregið í gegnum fyrri lykkjuna, svo seinni lykkjuna og loks er garnið dregið í gegnum báðar lykkjurnar í einu.

Uppskrift:

Heklið 44-48-52 ll og tengið í hring með kl. Heklið svo eina fl í hverja fl, alls 4 umferðir. 

Þá er byrjað á mynsturbekk þannig að heklað er framan í 2 fl, aftan í næstu 2 fl, og endurtakið til skiptis þannig út umferðina. Heklið þannig 18-20-22 umferðir. 

Í næstu umferð fækkum við um alls 4 l með því að hekla 4 * 2 l saman jafnt yfir umferðina. Heklið áfram fl í hring en farið nú í gegnum báða hluta fl fyrri umferðar, alls 18-20-22 umferðir.

Setjið nú prjónamerki við upphaf umferðar og byrjið að hekla hælkappann. Heklið 20-22-24 fl, snúið við (athugið að hekla 1 ll þegar snúið er við) og heklið til baka 1 fl í hverja fl alls 16-18-20 umf. 

Nú er mótað fyrir hæl með því að hekla 14-16-18 fl 2 fl saman, snúið stykkinu við, heklið 9-9-11 fl, 2 fl saman, snúið við, heklið 9-9-11 fl, 2 fl saman (athugið að hér og héðan í frá eru síðasta fl af flipanum og næsta lykkja á hælkappanum heklaðar saman). Haldið þannig áfram þar til búið er að hekla í allar lykkjur á hælkappanum og þá eru alls 10-10-12 l á þessum hluta stykkisins. 

Nú er aftur farið að hekla í hring, athugið að umferðin telst nú hefjast undir miðjum hælnum. Heklið meðfram hælkappanum 1 fl í hverja umferð, setjið prjónamerki við samskeyti hælkappa og sokks báðum megin, þá eiga að vera 20-22-24 l á ristinni á milli prjónamerkja. 

Í næstu umferð er byrjað að taka saman þannig að þegar 3 l eru að fyrra prjónamerki eru 2 l heklaðar saman og þegar 1 l er frá seinna prjónamerki eru 2 l heklaðar saman. Haldið þannig áfram í hverri umferð þar til 20-22-24 l eru milli prjónamerkja hælmegin, en áfram eru 20-22-24 á ristinni.   

Heklið nú áfram í hring þar til alls eru komnar 37-40-43 umferðir frá hælkappa. 

Setjið þá prjónamerki, eitt eftir 10-11-12 l, annað 20-22-24 l seinna. Nú er farið að móta fyrir tám, til að byrja með í annarri hverri umferð þannig: heklið þar til 3 l eru að merkinu, heklið þá 2 fl saman, 2 fl, 2 fl saman, gerið eins við næsta merki. 

Þegar 12-14-16 l eru á milli merkja eru úrtökurnar gerðar í hverri umferð þar til 8 l eru í umferð. Klippið þá garnið frá og dragið í gegnum lykkjurnar sem eftir eru og herðið að.

Heklið annan sokk eins.

Gangið frá endum, skolið í mildu sápuvatni.        

Uppskrift: Þóra Þórarinsdóttir

Nýjar fréttir