-4.5 C
Selfoss

Annáll bæjarstjóra Hveragerðis 2021

Vinsælast

Einhvern veginn datt manni ekki til hugar að annað árið í röð yrði undirlagt umræðu um smitgát, sóttkví, einangrun og heilbrigðiskerfið. En þetta ár var samt betra en árið á undan! Lífið einkenndist af gleði, sól og sumri, ekki síst fyrir norðan og austan. Hitatölur og sólarstundir sem hefðu sómt sér vel mun sunnar í álfunni sáust ekki bara dag eftir dag heldur viku eftir viku. En hér í Hveragerði rigndi duglega. Það er gott fyrir gróðurinn segja hinir jákvæðu, við hin vonumst eftir sumri og sólríkum dögum á næsta ári. Við eigum það svo sannarlega inni!

Íbúum fjölgar sem aldrei fyrr

Hér í Hveragerði fjölgar íbúum stöðugt. Nú er það ekki spurning hvort heldur frekar hvenær íbúatalan nær 3.000. Fjölgað hefur um 190 manns á árinu og er það fáheyrð fjölgun í þéttbýli á Íslandi eða um 7%. Á næstu misserum mun svo enn fjölga í hópi bæjarbúa því á annað hundrað íbúða eru nú í byggingu og fjöldi annarra eru á teikniborðinu. Það hefur lengi loðað við umræðuna að Hvergerðingum sé þröngt sniðinn stakkur hvað lóðamál varðar og því geti ekki fjölgað hér nema takmarkað. Það er því gott að vita til þess að mjög stór svæði hér innan bæjarmarkanna eru enn óbyggð og því getum við stolt vitað af því að margfalda má bæjarfélagið sé vilji til þess.

Fjölbreytni í atvinnulífinu

Á árinu fylgdumst við spennt með uppbyggingu Gróðurhússins við Breiðumörk. Það hefur nú opnað og óskum við þeim fjölmörgu rekstraaðilum sem þar eru með rekstur velfarnaðar í framtíðinni. Það sama gerum við varðandi alla hina sem veðjað hafa á Hveragerði hvað atvinnuuppbygginu varðar en á árinu hefur lóðum verið úthlutað fyrir fyrirtæki sem samtals gætu verið með vel ríflega 100 manns í vinnu. Nú hefur myndast nýr rúntur í bæjarfélaginu en það er gaman að renna upp í Dal og fylgjast með lífinu sem fylgir nýja staðnum sem þar er kominn. Hafin er gjaldtaka á bílastæðinu við Árhólma og eftir brösuga byrjun gengur innheimta þar núna ljómandi vel og er sérlega gaman að sjá ríkan greiðsluvilja gesta sem um svæðið fara.

Tölvuvæðing grunnskólans

Viðbyggingu við grunnskólann miðaði vel á árinu og við upphaf skólastarfs í haust var hægt að hefja kennslu í sex nýjum kennslustofum sem með fallegum hætti tengjast við Lystigarðinn Fossflöt. Í grunnskólanum er nú einnig verið að tölvuvæða skólann í samræmi við tillögu frá starfshópi. Er það vilji bæjarstjórnar að skólinn verði eins góður og mögulegt er hvað aðbúnað og kennsluhætti varðar.
Fjölgun íbúa fylgja nýjar áskoranir og því hafa nú verið teknar í notkun nýjar lausar kennslustofur við Leikskólann Óskaland þar sem tvær deildir elstu barna munu hafa aðsetur. Það gefur möguleika á að taka nú inn allra yngstu börnin í bænum. Einnig er áformað að byggja við Óskaland á næsta ári til að bæta aðstöðuna þar enn frekar.

Búningsklefar í sundlauginni endurnýjaðir

Framkvæmdum við endurnýjun búningsklefa í Sundlauginni Laugaskarði er enn ekki lokið og hefur sú framkvæmd reynst nákvæmlega eins erfið og við mátti búast. Ýmislegt hefur komið upp sem skýrir það enda er húsið komið af léttasta skeiði og alls konar hlutir sem þurfti að bregðast við komu upp við endurbæturnar. Aftur á móti þykja búningsklefarnir vel lukkaðir og fallegir sem er ánægjulegt.

Íþróttir fyrir alla

Heilsuefling eldri borgara í Hamarshöll nýtur mikilla vinsælda en þar bíður bæjarfélagið þessum dýrmæta hópi upp á þjálfun með afar góðum kennara, allt gjaldfrjálst.

Meistaraflokkur karla í blaki náði einstökum árangri á árinu en strákarnir unnu alla titla ársins og alla leiki sem þeir spiluðu. Urðu þar með deildar-, bikar-, og Íslandsmeistarar í blaki. Ekkert lát er á árangri liðsins en enn eru þeir ósigraðir í öllum leikjum sem þeir hafa spilað á þessari leiktíð. Margir aðrir hafa staðið sig vel á árinu sem var að líða og fylgjumst við áhugasöm með árangri okkar fólks hvort sem það er hér innanlands eða utan.

Sá markverði atburður átti sér stað á árinu að þrautseigur formaður Körfuknattleiksdeildar Hamars lét af störfum eftir 29 ára starf. Vafasamt að nokkur nái að slá það met. Er rétt af því tilefni að þakka og fagna öllum þeim fjölmörgu sem gefa af dýrmætum tíma sínum til sjálfboðinna starfa af ýmsum toga. Slíkt verður seint fullþakkað.

Lystigarðurinn nýtur vinsælda

Vinir Lystigarðsins er hópur fólks sem vinnur hörðum höndum að því að koma Lystigarðinum Fossflöt í það horf að hann standi undir nafni. Er það ómetanlegt að eiga slíkan hóp að. Ekki síður er ánægjulegt að eiga hóp eins og þann sem smíðaði risastólinn góða sem nú prýðir Lystigarðinn og vakið hefur ómælda athygli. Nýtt svið er síðan komið upp í Lystigarðinum og er vonandi að það geti nýst fyrir alls konar uppákomur í framtíðinni svona þegar aftur má koma saman.

Framundan er betri tíð

Hátíðir ársins voru hófstilltar og sumar allavega með minnsta móti en við getum látið okkur hlakka til betri tíðar með fjölbreyttum og skemmtilegum samverustundum. Munum nefnilega að maður er manns gaman og því er mikilvægt að við tökum virkan þátt í samfélaginu. Mætum, gleðjumst og njótum saman. Þannig verður lífið svo miklu skemmtilegra.

Um leið og ég þakka ánægjulegar samverustundir og gott samstarf á liðnum árum óska ég ykkur öllum farsældar á komandi ári.

Aldís Hafsteinsdóttir,
bæjarstjóri Hveragerðis

Nýjar fréttir