7.3 C
Selfoss

Yfir 50 útköll hjá Brunavörnum Árnessýslu

Vinsælast

Brunavarnir Árnessýslu voru á fullum snúning um áramótin en sinntu þær yfir 50 útköllum tengdum gróðueldum á gamlárskvöldi og nýársnótt. Fyrr um kvöldið höfðu íbúar í Árnessýslu fengið SMS frá slökkvistjóra um að sýna aðgát þegar skotið væri upp flugeldum þar sem gróður á svæðinu væri mjög þurr.

„Rétt fyrir kl. 18 á gamlárskvöld byrjuðu útköllin, sem voru hér og þar um sýsluna þannig að mannskapurinn okkar var á fleygi ferð. Við sjáum þetta róast aðeins á meðan skaupið er í gangi, síðan strax eftir skaupið fer allt á fullt aftur,“ segir Lárus Kristinn Guðmundsson, settur varaslökkviliðsstjóri, en liðsmenn BÁ voru að sinna útköllum alveg til kl. 3-4 um nóttina. „Við höfum ekki séð þennan fjölda útkalla áður, þó maður hefur oft séð mörg útköll í einu,“ segir Lárus.

Sinueldarnir í Tjarnarbyggðinni í Árborg var stærsta útkallið, en á mörgum stöðum stóð það tæpt á að eldar færu í húsnæði eða önnur mannvirki. „Mikið af þessum litlu eldum sem voru að kvikna voru rétt við hús, t.d. í Þorlákshöfn og upp á Skeiðum. Síðan mikið um brennur sem voru ekki með leyfi, en þá voru að fjúka frá þeim eldglæður sem náðu að kveikja í sinu,“ segir Lárus.

Útköllin héldu áfram á nýju ári

Á Nýársdagsmorgun fengu BÁ útkall þar sem gróðureldar voru uppá Hamrinum fyrir ofan Hveragerði, en að öðru leiti var nýrársdagur tiltölulega rólegur. Annan janúar voru þrjú útköll vegna gróðurelda, ásamt einu umferðarslysi.

Fengu oft góða hjálp

Lárus nefnir að það hafi verið margt fólk sem aðstoðaði við slökkvistörf og slökkti marga elda sem við fréttum af eftirá. Á útskallsstöðunum var fólk oft mætt út með garðslöngur, slökkvitæki og skóflur til að hjálpa við slökkvistörf.

Nýjar fréttir