Í ár var í fyrsta sinn haldin jólaskreytingakeppni Rangárþings eystra og má segja að íbúar hafi sannarlega tekið það til hjartans því að sjaldan hefur eins mikið og fallega verið skreytt í öllu sveitarfélaginu og virkilega úr vöndu að ráða. Óskað var eftir tilnefningum frá íbúum um fallega skreytt hús og bárust fjölmargar. Dómnefnd var einnig fengin til að meta skreytingar og að fengnu áliti hennar og með tilliti til tilnefninga var ákveðið að veita 2 íbúðarhúsum á Hvolsvelli og einu fyrirtæki verðlaun að þessu sinni.
Eru allir hvattir til að taka sér bíltúr eða göngutúr um Hvolsvöll og dreifbýlið og skoða allar fallegu skreytingarnar í ár.
Þau íbúðarhús sem unnu til verðlauna voru Gunnarsgerði 7a og Hvolstún 16.
Í Gunnarsgerði 7a búa Elías, Theodóra Jóna og óskírður Elíasson. Álit dómnefndar: Virkilega stílhreinar og smekklegar skreytingar sem hafa verið settar upp þannig að húsið er eins og fallegur jólapakki. Skreytingarnar tóna vel við svart húsið og pakkaklæddar útidyr er snjallt smáatriði sem vekur athygli.
Í Hvolstúni 16 búa Stella Sólveig, Ásmundur og Eva Hrönn, 5 ára. Álit dómnefndar: Virkilega fjölbreyttar og skemmtilegar skreytingar sem mynda flotta heild og jólagleðin er algjörlega við völd. Ekki skemmir fyrir að heyra jölalög óma þegar gengið er framhjá húsinu.
Rafverkstæði Ragnars vann verðlaun fyrir best skreytta fyrirtækið en eigendur fyrirtækisins eru þau Árný Hrund og Ragnar. Álit dómnefndar: Falleg og sniðug skreyting við fyrirtæki sem kemur mjög vel út. Pakkar við jólatréð er flott smáatriði en gerir mikið fyrir heildarmyndina. Einnig má nefna að garður þeirra hjóna við Gilsbakka 1 er ríkulega skreyttur og minnir á jólaævintýraland.
Rangárþing eystra óskar verðlaunahöfum til hamingju og við hlökkum til að endurtaka leikinn að ári.