Brautskráning frá FSu tókst að vanda með ágætum á haustönn 2021, þann 18. desember síðastliðinn. Þrátt fyrir að hún væri að hluta rafræn leggja allir sín lóð á vogarskálarnar. Í því sambandi mæðir mikið á stjórnendum skólans. Þar liggur álagið. Allt þarf að vera klárt á réttum tíma. Athöfnin hófst á því að þrír nemendur FSu, Flúðaskóla og Tónlistarskóla Árnessýslu léku á strengjahljóðfæri og fluttu þríleik á fiðlur þar sem strengirnir voru ýmist stroknir eða plokkaðir. Tónverk í frjálsu formi eftir Jósef Helmesberger þar sem Einar Bjartur Egilsson tónlistarkennari stýrði flutningnum og sá um undirleik á píanó. Flytjendur voru Elísabet Anna Dutsjak, Eyrúnu Hrund Ingvarsdóttur og Hildur Tanja Karlsdóttir. Virkilega skemmtilegt INTRÓ.
Að því loknu tók skólameistari Olga Lísa Garðarsdóttir við og stýrði athöfninni. Auk praktískra tilkynninga sem fylgja faraldri kórónuveiru kom hún á framfæri sérstökum þökkum til nemenda sem alltaf hafa fylgt sóttvarnarreglum en lagði um leið áherslu á mikilvægi bóklesturs í allri menntun. Hún talaði reyndar um „dásamleika bóklesturs” og tekur fréttaritari undir hvert orð hennar í þeim efnum. Að því búnu flutti Sigursveinn Sigurðsson aðstoðarskólameistari annál skólastarfsins sem hefð er fyrir og kennir þar ýmissa grasa þar á meðal tilvitnun í skólaskáld FSu sem er í senn nafnalaust og ómissandi.
Þá afhenti Olga Lísa útskriftarnemendum skírteini sín í stafrófsröð. Að því búnu afhenti heiðursmaður Björgvin Eyjólfur áfangastjóri skólans sérstakar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir formaður skólanefndar ávarpaði svo samkomuna EN alltaf í mynd og fyrir framan ræðumenn var heimasmíðaða púltið með fallegu merki skólans sem Ólafur Th. Ólafsson myndlistarkennari til margra ára hannaði á sínum tíma af sinni einstöku hugfimi.
Skólameistari Olga Lísa Garðarsdóttir hélt svo hvatningar- og lokaræðu til nýútskrifaðra nemenda en í heildina brautskráðust sextíu nemendur frá skólanum að þessu sinni. Lokaræðuna flutti svo nýstúdetninn Heiðar Óli Guðmundsson af sinni rangæsku snilld og dýpt. Kom hann víða við í erindi sínu og er það alltaf gleði og gæfa okkar eldri að hlýða á orðræðu nýstúdents því í þeim felst speki nýs tíma.
DÚX scholae með hæstu meðaleinkunn varð Ágúst Máni Þorsteinsson auk þess fékk hann sérstök verðlaun fyrir árangur í ensku en aðrir sem hlutu viðurkenningu voru Daníel Swiecicki fyrir framúrskarandi árangur í stærðfræði og enskri tungu, Jónas Grétarsson fékk verðlaun fyrir frábæran árangur í þýsku, Elísabet Anna Dudziak fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í þýsku og félagsgreinum, Alína Maríana Rujuc öðlaðist viðurkenningu fyrir fyrirmyndar árangur í spænsku, Diljá Ósk Snjólfsdóttir fékk viðurkenningu fyrir nám sitt í íþróttum og íþróttafræðum auk þess sem Hlynur Héðinsson var viðurkenndur fyrir framlega sitt til félagsstarfs í skólanum.
Hollvarðasamtök Fjölbrautaskóla Suðurlands veittu að auki þremur nemendum fjárstyrk fyrir frábæran námsárangur með þeirri hvatningu að þeir héldu áfram námi. Voru það Ágúst Máni Þorsteinsson, Danieli Swiecicki og Diljá Ósk Snjólfsdóttir. Veitti skólameistari styrkin fyrir hönd Hollvarðanna sem eru samtök hollvina sem vilja auka menntaveg skólans og nemenda hans sem mest.
Öllum öðrum nemendum er þökkuð samfylgdin í skólanum okkar gula og glæsilega. Við erum öll ljós í tilverunni og þannig myndum við mennta- og skólasamfélag um aldur og ævi. -jöz.