-6.1 C
Selfoss

Styrkur veittur til Dropans

Vinsælast

Síðastliðin ár hafa nemendur og starfsfólk Grunnskólans í Hveragerði haldið góðgerðarþema, þemað féll niður árið 2020 vegna heimsfaraldurs Covid. Góðgerðadagurinn er lokadagur árlegs þema. Tilgangur góðgerðaþemans er að efla samkennd nemenda og láta um leið gott af sér leiða. Þrír dagar fara í vinnu þar sem ýmis varningur oft tengdur jólahátíðinni er útbúinn og fjórði dagurinn Góðgerðardagurinn hefur verið með þeim hætti að skólinn breytist í risastórt markaðstorg þar sem varningurinn er til sölu. Góðgerðardagurinn var haldinn föstudaginn 3. desember síðastliðinn. Dagurinn var ekki með hefðbundnu sniði þetta árið heldur var opnuð vefverslun þar sem fólk keypti varninginn.

Ein stærsta ákvörðun sem tekin er í tengslum við góðgerðarþemað er hvaða starfsemi á að styrkja hverju sinni. Ákvarðanatakan er lögð í hendur nemenda. Í öllum bekkjum fer fram umræða um hvaða starfsemi er vilji til að styrkja. Í framhaldi af þeirri umræðu er rafræn könnun lögð fyrir hvern bekk. Kosning um hugmyndir nemenda fer einnig fram meðal starfsfólks. Sameiginleg niðurstaða starfsfólks og nemenda í ár er sú að styrkja Dropann, styrktarfélag barna með sykursýki.

Þetta er sjötta árið sem nemendur skólans vinna að góðgerðarmálum með þessum hætti. Meginstefið hefur verið að börn styrki börn. Fyrri styrkþegar eru: Amnesty International, Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna, Barnaspítali Hringsins, Birta landssamtök og Neistinn styrktarfélag hjartveikra barna sem fengu ágóðann. Umtalsverðar fjárhæðir hafa safnast á þessum árum. Fjölmörg fyrirtæki studdu Góðgerðardaginn með beinum peningastyrkjum.

Þann 16. desember var haldinn árlegur „opinn gangasöngur“ hjá Grunnskólanum í Hveragerði sem heppnaðist afar vel. Hann fór þó fram að þessu sinni með fámennum nemendahóp og streymt í stofur og raunar til heimsbyggðarinnar allrar. Linda María Benjamínsdóttir formaður nemendaráðs og Einar Kári Andrason yngsti nemandi skólans afhentu Leifi Gunnarssyni formanni Dropans styrk frá nemendum og starfsfólki Grunnskólans í Hveragerði. Styrkupphæðin var 1.400.000.-

Fjórir nemendur úr 5. bekk, efndu til aukasöfnunar, útbjuggu jólakort og seldu í verslunarmiðstöðinni við Sunnumörk. Með því safnaðist á annan tug þúsunda þetta voru þær: Bríanna Lind, Emilía Ósk, Hera Fönn og Rakel Dalía. Vel gert stelpur.

Nýjar fréttir