-1.1 C
Selfoss

Kakókot hjá Grunnskólanum á Hellu

Vinsælast

Góðar hugmyndir koma oft upp í samtali en það er ekki alltaf sem þær eru framkvæmdar. Lovísa Björk Sigurðardóttir starfsmaður Grunnskólans Hellu er forsprakki þessarar hugmyndar. Þetta byrjaði sem spjall við samstarfskonu um að gleðja þau börn sem voru á Skóladagheimilinu sem er gæsludagheimili fyrir nemendur úr 1. – 4. bekk eftir skóla. Þessi hugmynd fór í framkvæmd árið 2005 og hefur verið liður í jólaundirbúningi Grunnskólans Hellu síðan. Aðeins einu sinni hefur þessi hefð fallið niður og var það í fyrra en þá voru fjöldatakmarkanir og einn bekkur skólans tók yfir Skóladagheimilið og var Kakókots sárt saknað það árið. Nemendur og starfsfólk hlakkar til og bíða spenntir eftir boði um að setjast inn í jólalegt rými skólans, hlusta á jólalög, drekka heitt kakó og fá sér nokkrar piparkökur. Eldri nemendur sem hafa lokið grunnskólagöngu sinni minnast oft á Kakókot á þessum tíma og einungis góðar tilfinningar vakna við þá upprifjun. Stemmningin er mjög notaleg þar sem nemendur og starfsfólk situr saman og spjalla um allt og ekkert.  Misjafnt hefur verið hvernig fyrirkomulag Kakókotsins er. Oft er það þannig að 1. bekkingar klæðast jólasveinahúfum og banka upp á hjá hverjum bekk fyrir sig og bjóða þeim í Kakókot og er þetta hlutverk tekið mjög alvarlega. Það er algjört hernaðarleyndarmál hverjir fá boð hvaða dag en yfirleitt er fyrsta vika aðventunnar tekin í þetta. Hér í skólanum er unnið með vinabekki og stundum hafa þeir setið saman. Í ár var það þannig að hver bekkur sat einn að góðgætinu í einu. Lovísa og starfsfólk hennar á Skóladagheimilinu sjá um að skreyta, setja dúka á borðið, búa til kakó og leggja á borð fyrir gesti. Lovísa segir að fyrir sér sé þetta partur af hennar jólaundirbúningi, hún fái alltaf heitt í hjartað því viðtökur starfsfólks og nemenda séu svo gefandi. Það eina sem óskað er af starfsfólki Kakókots að borga fyrir með söng og hefur það hingað til ekki verið vandamál.

Nýjar fréttir