3.9 C
Selfoss

Fengu Verum ástfangin af lífinu að gjöf

Vinsælast

Bókin Verum ástfangin af lífinu eftir Þorgrím Þráinsson kom út á dögunum. Bókin er stútfull af hvatningu og ráðum um hvernig maður getur verið sinnar gæfu smiður. Fjallað er um samskipti við vini og fjölskyldu, mikilvægi hreyfingar, markmiðssetningu, hvernig á að rækta hæfileika sína, baráttuna við kvíða og hvernig þú getur orðið betri manneskja. Bókin er framhald af fyrirlestrum sem Þorgrímur hefur farið með í skóla um allt land á undanförnum árum. Þorgrímur hefur komið í Þorlákshöfn á hverju skólaári og heimsóknir hans jafnan vakið athygli og góðar umræður meðal nemenda grunnskólans.

Sigrún Berglind, kennari á unglingastigi við Grunnskólann í Þorlákshöfn, fletti bókinni þegar hún kom á skólabókasafnið. Henni þótti bókin eiga vel við og að allir okkar unglingar á elsta stigi þyrftu að eignast bókina. Sigrún tók sig til og hafði samband við Hannes Sigurðsson útgerðarmann hjá Hafnarnesi Ver og ræddi hugmyndina.

Skemmst er frá því að segja að Hannes tók vel í hugmyndina og komu börn hans og Tótu í skólann og afhentu bókina að gjöf til allra nemenda í 8. – 10. bekk. Skólinn hafði samband við Þorgrím sem var ekki lengi að bregðast við og kom í skólann og ritaði persónulega kveðju inni í hverja og eina bók.

Við í Grunnskólanum í Þorlákshöfn þökkum kærlega fyrir þessa höfðinglegu jólagjöf frá fjölskyldunni í Hafnarnes Ver.  Bókin mun án efa  gagnast nemendum vel.

Á myndinni sem fylgir fréttinni má sjá Sigrúnu Berglindi kennara, Evu Rán og Elmar fulltrúa frá nemendaráði, Þorgrím, Ólaf og Katrínu.

Nýjar fréttir