-10.7 C
Selfoss

Heimilishjálp verði frádráttarbær frá skatti

Vinsælast

Sex þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru flutningsmenn frumvarps til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og felur í sér að einstaklingum verði heimilt að draga frá tekjuskattstofni einstaklinga kostnað sem fellur til vegna heimilishjálpar, að hámarki 1,8 milljón króna á ári. Frádrættinum er ætlað að ná til starfa sem innt eru af hendi hér á landi á heimili einstaklinga og í sumarhúsum þeirra. 

Til slíkra starfa teljast t.d. hefðbundin heimilisstörf, svo sem þrif og hreingerningar, hefðbundin garðyrkjustörf eða snjómokstur á gangstéttum og í innkeyrslu að heimili. Þegar húsfélag fjöleignarhúss annast greiðslu kostnaðar úr sameiginlegum sjóði vegna slíkra starfa á sameign getur einstaklingur dregið sinn hlut í þeim kostnaði frá tekjuskattsstofni sínum. 

Þá er ákvæðinu jafnframt ætlað að ná til annars konar umönnunar, svo sem umönnunar heimilismanna vegna veikinda eða fötlunar, umönnunar barna, sem felur m.a. í sér aðstoð við heimavinnu og fleira skólatengt, ásamt því að fylgja börnum í og úr leikskóla, skóla og frístundastarfi. Ákvæðinu er einnig ætlað að taka til aðstoðar við einstakling í tengslum við ferðir til og frá heimili, t.d. ferðir á heilsugæslustöð, í banka eða annað sambærilegt.

„Markmiðið með frumvarpi þessu er m.a. að sporna við svartri atvinnustarfsemi auk þess sem hægt verður að auka réttindi þess fólks sem vinnur í dag þau störf sem hér eru talin. Með því er m.a. átt við lífeyrisgreiðslur og atvinnuleysisbætur,“ segir Vilhjálmur Árnason sem er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. 

Meðflutningsmenn Vilhjálms eru þingmennirnir Óli Björn Kárason, Birgir Þórarinsson, Diljá Mist Einarsdóttir, Guðrún Hafsteinsdóttir og Berglind Ósk Guðmundsdóttir. 

Nánari upplýsingar veitir Vilhjálmur Árnason í síma 869 9294.

Nýjar fréttir