1.7 C
Selfoss

Nóg að gera hjá lögreglunni á Suðurlandi

Vinsælast

Sex af þeim ökumönnum sem lögregla hafði afskipti af í liðinni viku eru grunaðir um að hafa ekið bifreiðum sínum ölvaðir.  Einn þeirra er jafnframt grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna en auk ofangreinds var einn ökumaður stöðvaður vegna gruns um fíkniefnaakstur. Ökumenn þessir voru flestir í Árnessýslu en einn þeirra ölvuðu í Sveitarfélaginu Hornafirði.   Einungis 2 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í liðinni viku og rekur þann sem þetta skrifar ekki minni til þess að það hafi áður gerst að ölunaraksturskærur séu fleiri en hraðakstursbrotin.

Ökumaður fólksflutningabíls sem stöðvaður var þann 3. desember gat ekki framvísað gögnum úr ökurita og var kærður vegna þess brots.   Ökumaður annars fólksflutningabíls reyndist með útrunnin ökuréttindi og sætir kæru vegna þess.

11 umferðarslys voru tilkynnt til lögreglu í liðinni viku.  Í einu þeirra, þann 30. nóvember valt rúta á þjóðvegi 1 í Mýrdal en í henni voru 7 farþegar.   Einn þeirra fluttur til aðhlynningar á heilbrigðisstofnun en aðrir lítið meiddir.     Í öðru tilviki varð árekstur á einbreiðri brú yfir Hoffelssá án þess þó að slys yrðu á fólki en brúin var lokuð meðan unnið var að því að fjarlægja ökutækin af henni.  Bæði óökufær.

Þann 2. desember hrundi þak á húsnæði sem nýtt er til geymslu á hjólhýsum, húsbílum og tjaldvögnum á bænum Mön  í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.   Snjór hafði safnast fyrir á þakinu og síðan hlánaði og rigndi í snjóinn og þar með virðist þakið hafa brostið undan þunganum.   Lögregla ásamt byggingarfulltrúa og fulltrúa frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafa rannsakað vettvang og hefur hann nú verið afhentur húsráðanda.   Málið er áfram til rannsóknar hjá lögreglu en ljóst er að umtalsvert tjón hefur orði á húsnæðinu og á munum innanhúss.

3 mál komu upp er varða ágreining inn á heimili eða heimilisofbeldi.  Eru til rannsóknar og úrvinnslu  með viðeigandi félagsmálayfirvöldum eftir því sem við á í hverju máli.

Eins og kunnugt er hljóp úr Grímsvötnum í Gígjukvísl í liðinni viku. Hlaupið náði hámarki í gær og byrjaði að draga úr því strax sama dag.   Búast má við að töluvert rennsli verði í Gígjukvísl meðan vatn er að tæmast undan jöklinum.   Nú er hinsvegar fylgst með svæðinu áfram enda þekkt í sögunni að eldgos geti hafist í kjölfar léttingar þessa gríðarlega massa sem tæplega rúmkílómeter af vatni af jöklinum leiðir af sér.  Jarðskjálftar hafa mælst á svæðinu í morgun og er sú virkni umfram það sem telst venjubundið við svæðið án þess þó að nokkur leið sé að segja um hvað eða hvort hún sé fyrirboði um frekari virkni.

Nýjar fréttir