Sagan segir að dag einn hafi Kólumbus verið í samkvæmi hjá spænskum aðalsmanni og að þar hafi öfundarmenn hans skemmt sér við að gera lítið úr því afreki Kólumbusar að sigla til Ameríku. „Það er lítið mál að finna Ameríku,“ sagði einn öfundarmaðurinn við Kólumbus, „að sigla bara þangað til rekist er á þetta risastóra land. Hver sem er gæti gert það!“
Það er vafalaust alveg rétt, sagði Kólumbus. „Ég býst ekki við að það sé í rauninni neitt erfiðara en að láta hrátt hænuegg standa upp á endann á borðinu. Þú vildir kannski reyna það, kunningi?“
Nú var heimtaður sægur af hænueggjum handa öllum veislugestum og allir fóru að reyna að láta þau standa upp á endann á borðinu. En það var sama hvað menn reyndu og reyndu, engum tókst það. Eftir langa mæðu urðu allir að viðurkenna að þeir gætu þetta ekki og spurðu nú Kólumbus hvort að hann gæti það.
Við skulum nú athuga málið, sagði Kólumbus, tók eitt eggjanna og sló því léttilega í borðið, svo að annar endinn flattist dálítið út. Það var nóg til þess að eggið gat staðið upprétt á borðinu. „Jaaaaá… þetta er enginn vandi“, sögðu veislugestir „þegar maður veit hvernig á að fara að því …“.
„Það er nú einmitt það“, sagði Kólumbus. „Það er heldur enginn vandi að finna Ameríku, þegar maður bara veit, hvernig á að fara að því.“ Þarna birtist einstök lausn á einstökum vanda, sem enginn kom auga á annar en Kólumbus.
Leyfum jákvæðri og skapandi hugsun að njóta sín um hátíðarnar og umvefjum fjölskyldu og vini kærleika og ást og látum öfundina, eina öflugustu orsök óhamingju mannsins, lönd og leið um alla framtíð.
Með jólakveðju til íbúa Svf. Árborgar og allra landsmanna,
Tómas Ellert Tómasson bæjarfulltrúi M-listans í Svf. Árborg.