2.8 C
Selfoss

Jólatré í stofu standa – Nemendur í ML skreyta gömlu jólatrén

Vinsælast

Í Húsinu á Eyrarbakka stendur nú yfir jólasýning Byggðasafns Árnesinga. Þar eru gömlu íslensku jólatrén í forgrunni og ýmislegt annað sem minnir á jólin sem einu sinni voru. Á sýningunni í ár er þó ein skemmtileg nýjung: Þrjú jólatré skreytt af nemendum Menntaskólans að Laugarvatni og eru þau dásamleg viðbót.

Trén eru afrakstur samstarfs Byggðasafnsins og nemenda í íslensku í 3. bekk í ML.

Nemendurnir í ML veltu fyrir sér jólahefðum fyrr og nú og leyfðu andanum að koma yfir sig. Afrakstur vinnu þeirra eru þrjú ólík tré, hvert með sitt þema. Eitt hverfist um orð og ljóð sem tengjast snjó, annað prýðir ný afbrigði af jólasveinavísunum gömlu og á því þriðja eru perlur minninga, æskuminningar nemenda sem tengjast jólunum.

Samstarf af þessum toga er nú á dagskrá í annað sinn en fyrsta heimsóknin var í Vallaskóla á Selfossi í fyrra. Þá fengu nemendur í 4. bekk trén til varðveislu og máttu útfæra þau eftir eigin höfði. Þeir bjuggu til fallegt jólaskraut á trén innblásið af englum, bjöllum og rúsínupokum fortíðar. Sýnishorn af skrautinu má enn sjá á jólasýningunni í ár.

Verkefnið er hluti af safnfræðslu Byggðasafnins „Jólatré í skólastofu“ og stendur til að láta trén ganga á milli skóla ár eftir ár og nýta tækifærið til fræðslu- og samverustunda.


Nýjar fréttir