3.9 C
Selfoss

Horfur góðar þó nú kreppi að

Vinsælast

Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Árborgar árin 2022-2025 var lögð fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar á Stokkseyri þann 1. desember.

Hörð efnahagskreppa, hraður vöxtur Árborgar og auknar kröfur íbúa til þjónustu sveitarfélaga eru verkefnin sem blasa við sveitarfélaginu. Engu að síður eru horfur góðar. Valdefling starfsfólks, styrking stafrænna innviða og stóraukin áhersla á innra eftirlit og rekstrargreiningar hafa þegar skilað miklum árangri og munu straumlínulaga reksturinn enn frekar á næstu mánuðum og árum. Hallinn árið 2022 verður mikill, líkt og á yfirstandandi ári. Jöfnuði verður hinsvegar náð á árinu 2023 og skuldaviðmið komið í ásættanlegt horf og á hraðri niðurleið árið 2025.

Halli samstæðu upp á einn milljarð árið 2022 er fyrirsjáanlegur og í fyrri umræðu er hann áætlaður 1.083 milljónir króna, þó vonir standi enn til að endanleg áætlun getið orðið hagstæðari. Það hefur mikil áhrif í rekstrarreikningi að verðbætur langtímalána hafa aukist um 450 milljónir á ársgrundvelli vegna efnahagsástandsins.

Umtalsverð kostnaðaraukning hefur auk þess átt sér stað vegna félagsmála og aukinna áherslna í barnavernd á landsvísu. Þá hefur sprenging í fjölda grunnskólabarna tekið í. Vegna þungra verkefna ríkissjóðs hafa þar á ofan verið umtalsverðar skerðingar á framlögum jöfnunarsjóðs, bæði í almennum framlögum og til málaflokks fatlaðs fólks.

Eins og glöggt má sjá í áætlun áranna 2022-2025, sem hér er einnig lögð fram, mun þetta ástand taka enda. Gert er ráð fyrir að rekstur sveitarfélagsins geti náð jöfnuði árið 2023 og að árið 2025 verði  skuldahlutfall skv. skuldaviðmiði sveitarfélaga komið niður í 134% og fari þá hratt lækkandi.

Þjónustuáherslur Svf. Árborgar hafa verið á fjölgun leikskólaplássa, gæði skólastarfs og eflingu félagsþjónustu og barnaverndar. Svo vel hefur tekist til í Árborg með þróun þjónustu í þágu barna að eftir er tekið á landsvísu og hafa starfsfólk annarra sveitarfélaga heimsótt okkur til að fá innsýn í það starf sem hér er unnið. Auk þessa hefur verið unnið afrek í að efla íþróttir og heilbrigði, með byggingu íþróttahúss sem rúmar hálfan knattspyrnuvöll og aðstöðu fyrir frjálsar íþróttir. Sérstaklega hefur verið ánægjulegt að sjá hve vel byggingin nýtist eldri borgurum.

Fjármagn þarf að fylgja fögrum fyrirheitum Alþingis

Síðustu ár hefur verið bætt verulega í framboð leikskólaplássa og hafa þau aukist umtalsvert í hlutfalli við íbúafjölda, með tilheyrandi kostnaði. Engu að síður er langt frá því að þörfum allra barna hafi verið þjónað. Börn í Árborg geta gengið að því vísu að komast að í leikskóla á aldrinum 16-18 mánaða, en öllum er ljóst að sjálfsögð krafa samfélagsins er að við 12 mánaða aldur, þegar fæðingarorlofi lýkur, eigi börn kost á leikskólaplássi. Þarna er því enn mikið verk að vinna. Um gríðarlegan kostnað er að ræða, enda standa leikskólagjöld ekki undir nema rúmum tíunda hlut rekstrarkostnaðar leikskóla.

Bæjarráð Árborgar hefur vakið athygli á því að undanförnu að löggjafinn getur ekki ætlast til þess að sveitarfélög byggi upp leikskóla fyrir börn frá lokum fæðingarorlofs án þess að til komi fullnægjandi tekjustofnar. Það er fagnaðarefni að önnur sveitarfélög hafa tekið undir með Árborg og ljóst að ekki verður við þetta unað. Engir tekjustofnar hafa nokkurn tíma verið skilgreindir til sveitarfélaga vegna leikskólamála. Þó hefur Alþingi samþykkt að leikskólinn sé fyrsta stig menntunar og hafa sveitarfélög byggt upp leikskólastarf í samræmi við þá ákvörðun.

Ríkisstjórn og Alþingi þurfa að breyta sínu vinnulagi gagnvart sveitarfélögum og hafa að leiðarljósi að samþykktum stefnum og fögrum fyrirheitum þarf að fylgja fjármagn ef verkefni eiga að vinnast með góðum árangri.

Nýjar fréttir