Þorvaldur Halldór Gunnarsson er lestrarhestur vikunnar.
Þorvaldur Halldór Gunnarsson fæddist í Reykjavík árið 1971 og sleit þar barnskónum. Hann útskrifaðist úr Menntaskólanum að Laugarvatni árið 1991, var við nám í HÍ og Árósaháskóla. Fluttist á Eyrarbakka árið 1998 og búið þar síðan með fjölskyldu sinni. Þorvaldur hefur starfað við ýmislegt en gegnir nú stöðu aðstoðarskólastjóra í Vallaskóla á Selfossi.
Hvaða bók ertu að lesa núna?
Stríð og klið eftir Sverri Norland. Vinur minn gaf mér hana í afmælisgjöf. Sá hitti naglann á höfuðið hvað áhugasvið mitt varðar. Bókin fjallar um skáldið Sverri Norland í heimi loftslagsbreytinga og á sérstaklega vel við í kjölfarið á ný afstaðinni loftslagsráðstefnu COP26 í Glasgow. Það svífur ekki bjartsýni yfir þessari bók en hún er fanta vel skrifuð. Hún á sannarlega erindi til mannskeppnunnar, skepnur sem eru í ráðaleysi í firringunni miðri og titrandi voninni um að leysa loftslagsvandann á næstu 5-10 árum (helst!). Þetta er líklega stærri og ógvænlegri staða en kjarnorkuváin sem ég og mín kynslóð ólst upp við á 8. og 9. áratug síðustu aldar. Annars er ég að lesa misþurrar fræðibækur og greinar tengdar stjórnun í menntageiranum – starfstengt en áhugavert.
Hvers konar bækur höfða til þín?
Fræðibækur, bækur með heimspekilegu ívafi, ævisögur eða ,,allt á hverfandi hveli“ bækur eins og eftir Andra Snæ Magnason. Hafði gaman af sjálfshjálparbókum og bókum um það að ná ,,meiri“ árangri í lífinu eins og bækur Brian Tracy (einhverjir glotta sjálfsagt núna). Þrátt fyrir að hafa farið í bókmenntafræði þá spæni ég ekki í mig fagurfræðilegar bækur. Það er þó ein og ein skáldsaga sem á það til að detta í fangið á mér. Ég fæ alltaf bók frá tengdó í jólagjöf sem lesin er í einni beit yfir hátíðirnar. Síðast fékk ég bókina ,,Spænska veikin“ eftir Gunnar Þór Bjarnason – gott verk og small inn í mitt kófið.
Hvernig lýsir þú bernsku lestri þínum?
Barbapabbi og fjölskylda hans. Svo auðvitað skemmtilegu smábarnabækurnar um Láka jarðálf, Bláu könnuna, Skoppu, Svörtu kisu og Tralla. Móðurafi minn kallaði mig alltaf Tralla mér til mikillar geðshræringar. Ég ólst upp í Breiðholtinu í dæmigerðum millistéttarstíl og lítið fór fyrir bókum í hillum blokkaríbúðanna. Foreldrar mínir lásu reyndar mikið dagblöð. Mér var auðvitað alltaf hlýtt yfir heimalesturinn eftir skóla. Og þær fáu bækur sem ég eignaðist fóru á sérstakan stað í hillusamstæðunni minni (fyrir ofan páfagaukabúrið) svo það sæist að þarna byggi gáfumaður. Svo fylgdi ég stundum æskuvini mínum í bókabílinn. Þessi vinur minn ,,át“ bækur og ég hneykslaðist og öfundaði hann á víxl að geta lesið svona mikið eftir Sven Hassel og Alistair MacLean. Á meðan hann burðaðist heim með fullan poka af spennusögum þá taldi ég mig góðan að taka eina bók um Frank og Jóa eða Fimm fræknu. Ég ánetjaðist teiknimyndasögum og voru Lukku Láki, Tinni og Ástríkur í sérstöku uppáhaldi. Það jafnaðist ekkert á við það að leggjast á bedda með safaríkt epli og lesa teiknimyndasögu (sama sagan lesin ótal sinnum án leiðinda). Anders And og Co las ég á dönsku í sakbitinni sælu (gisp!). Svo voru Tarzan og Kórak náttúrulega á sínum stað. Hins vegar á ég enga uppáhaldsbók, og þó. Ein bók markaði tímamót í mínu lífi, stóra Times Atlas landakortabókin sem ég keypti fyrir fermingarpeningana mína árið 1984. Þá rættist langþráður draumur sem kviknaði á skólabókasafni Hólabrekkuskóla um að eignast þessa stóru bók. Mér þykir alltaf vænt um íslensku orðabókina mína sem var reglulega flett í skóla, eins Esperanto orðabókina sem ég varðveiti eins og dýrgrip. Svo var okkur þrælað í gegnum Íslandsklukkuna í lok grunnskólans (einn hluta af þremur). Það var þrekvirki. Ekki veit ég hvort hinir óhörnuðu ,,eitís“ unglingar hafi kunnað að meta þetta meistaraverk af einhverju viti en mikið býsnuðumst við yfir því hvað höfundurinn væri lélegur í stafsetningu. Í menntaskóla kynntist ég Íslendingasögunum. Njála og Egilssaga voru svo gott sem lesin ofan í okkur. Eddukvæðin og norræna goðafræðin skaut þó huganum á magnað flug.
En hvernig lýsir þú lestrarvenjum þínum?
Ég telst líklega seint lestrarhestur (af virðingu við lestrarhesta). Var lengi hæglæs og það lagaðist ekki fyrr en á hraðlestrarnámskeiði Ólafs Hauks Johnson. Finnst einna best að lesa uppi í rúmi fyrir svefninn eða í hægindastól. Dagblöð les ég á netinu og stundum kaupi ég rafrænar bækur og les á Kindle. Reyndar tók ég upp á þeim ósóma að horfa á sjónvarpsþætti uppi í rúmi í stað þess að lesa fyrir svefninn. Sem betur fer reif bókin mig aftur af þeirri braut og svefninn er betri fyrir vikið.
Einhverjir uppáhalds höfundar?
Halldór Laxness gæti talist uppáhald. Þegar ég las Sjálfstætt fólk var ég oft agndofa yfir textasmíðinni. Ekki skemmdi fyrir að lesa þessa bók í Hruninu. Það gaf alveg nýja sýn á menn og málefni.
En hefur bók rænt þig svefni?
Nei. Og þó! Ein af ,,Útkalls-bókunum“ rændi mig svefni eitt sinn (sjálfsagt ekki einn um það).
En að lokum Valdi, hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?
Líklega fræðibækur um menntamál eða bækur með heimspekilegu ívafi sem fáir læsu. Ég gæti hafa fundið upp á því að skrifa kaldhæðnislegar smásögur eða sögur í stíl við texta Franz Kafka. Eins kæmi mér ekki á óvart ef ég hefði gefið út ljóðabók.
Umsjón með Lestrarhestinum hefur Jón Özur Snorrason.