Forlagið hefur gefið út bókina Bílamenningu eftir Örn Sigurðsson, en hún inniheldur 154 áhugaverða kafla um bíla og bílamenn. Hér eru bílar almennings, lögreglu og slökkviliðs; trukkar jafnt sem eðalvagnar, keppnisbílar, jeppar, vörubílar, húsbílar og snjóbílar, svo fátt eitt sé talið. Auk þess er fjallað á nýstárlegan hátt um fjölmargt annað sem tengist bílum, svo sem bensín- og smurstöðvar, verkstæði, bílasölur, hjólhýsi, leikföng, söfn og sýningar, að ógleymdri vega- og gatnagerð. Íslenskar yfirbyggingar, einstakt númerakerfi, sölunefndin og áralöng barátta bíleigenda við bifreiðaeftirlitið fá sinn skerf, líkt og H-dagurinn og ungir vegfarendur. Sérstakur kafli er tileinkaður bílabænum Selfossi. Íslendingar hafa ekki fremur en aðrir farið varhluta af þeirri áhugaverðu þróun bílamenningar sem hér er fjallað um á einstakan hátt á 320 síðum, en auk vandaðs texta prýða bókina nærri 1200 ljósmyndir sem margar hafa hvergi sést áður. Ómissandi stórvirki fyrir alla bílaáhugamenn.