2.8 C
Selfoss
Home Fréttir Bókin Bílamenning gefin út

Bókin Bílamenning gefin út

Bókin Bílamenning gefin út
Selfossbíó var opnað árið 1944 og naut strax mikilla vinsælda meðal heimamanna og gesta. Það þótti góður rúntur fyrir reykvíska bílamenn að skella sér austur fyrir fjall og kíkja í bíóið, eins og glöggt sést á þessari mynd sem tekin var árið 1957. Næst ljósmyndaranum er splunkunýr Ford Fairlane og til hliðar við hann sjást m.a. Packard, Chevrolet og Ford.

Forlagið hefur gefið út bókina Bílamenningu eftir Örn Sigurðsson, en hún inniheldur 154 áhugaverða kafla um bíla og bílamenn. Hér eru bílar almennings, lögreglu og slökkviliðs; trukkar jafnt sem eðalvagnar, keppnisbílar, jeppar, vörubílar, húsbílar og snjóbílar, svo fátt eitt sé talið. Auk þess er fjallað á nýstárlegan hátt um fjölmargt annað sem tengist bílum, svo sem bensín- og smurstöðvar, verkstæði, bílasölur, hjólhýsi, leikföng, söfn og sýningar, að ógleymdri vega- og gatnagerð. Íslenskar yfirbyggingar, einstakt númerakerfi, sölunefndin og áralöng barátta bíleigenda við bifreiðaeftirlitið fá sinn skerf, líkt og H-dagurinn og ungir vegfarendur. Sérstakur kafli er tileinkaður bílabænum Selfossi. Íslendingar hafa ekki fremur en aðrir farið varhluta af þeirri áhugaverðu þróun bílamenningar sem hér er fjallað um á einstakan hátt á 320 síðum, en auk vandaðs texta prýða bókina nærri 1200 ljósmyndir sem margar hafa hvergi sést áður. Ómissandi stórvirki fyrir alla bílaáhugamenn.

Kaupfélagssmiðjurnar á Selfossi byggðu yfir mjólkurbíla Mjólkurbús Flóamanna og önnuðust útgerð þeirra um áratuga skeið. Hér er Chevrolet-mjólkurbíll af árgerð 1947 á brúnni yfir Sandlæk í Hrunamannahreppi.
Gamla mjólkurbúið á Selfossi var teiknað af Guðjóni Samúelssyni húsameistara ríkisins árið 1929 og þótti lengi ein glæsilegasta atvinnubygging landsins. Því miður var þessi sögufræga bygging rifin árið 1955, en núna hefur hún verið endurreist í upprunalegri mynd í nýjum miðbæ á Selfossi sem skartar fjölda „horfinna“ húsa. Fremst á myndinni er Willys árgerð 1946 í eigu Vegagerðarinnar, með yfirbyggingu frá Kristni Jónssyni vagnasmið.
Selfossbíó var opnað árið 1944 og naut strax mikilla vinsælda meðal heimamanna og gesta. Það þótti góður rúntur fyrir reykvíska bílamenn að skella sér austur fyrir fjall og kíkja í bíóið, eins og glöggt sést á þessari mynd sem tekin var árið 1957. Næst ljósmyndaranum er splunkunýr Ford Fairlane og til hliðar við hann sjást m.a. Packard, Chevrolet og Ford.