-1.1 C
Selfoss
Home Umræðan Elsti barnaskóli landsins umkomulaus í óboðlegu húsnæði

Elsti barnaskóli landsins umkomulaus í óboðlegu húsnæði

0
Elsti barnaskóli landsins umkomulaus í óboðlegu húsnæði
Guðmundur Ármann Pétursson.

Nú á nýju ári mun Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri (BES) fagna 170 ára afmæli.  Þann 25 október árið 1852 hófst skólastarf með stofnun Barnaskóla Eyrarbakka.  Það má segja að af virðingu við þá merku sögu sem Barnaskólinn á Eyrarbakka á að þá er skólinn sá eini sem kallar sig enn barnaskóla, aðrir skólar eru nefndir grunnskólar.

Sá skóli sem á að vera djásn og stolt okkar sem búum í Árborg, er það því miður ekki.  Nemendur, kennarar, starfsfólk og stjórnendur ganga hvern dag til skóla og gera sitt besta við aðstæður sem eru fullkomlega óboðlegar fyrir alla þá sem að skólastarfinu koma.

Hinar óboðlegu aðstæður eru ekki nýtt vandamál.  Þetta er staða sem hefur versnað og versnað ár frá ári.

Það hefur verið áhugavert að fylgjast með öflugum foreldrum barna í ýmsum grunnskólum á höfuðborgasvæðinu fylgja fast eftir kröfum um boðlegt og heilsusamlegt húsnæði fyrir börn sín. Eðlilegum kröfum þar sem bæjaryfirvöld hafa orðið að bregðast við og það strax.

Það er umhugsunarvert hvort að við sem erum foreldrar barna á Eyrarbakka og Stokkseyri erum orðin of vön þeirri ömurlegu stöðu sem börn okkar eru sett í þegar þau nýta húsakost á Eyrarbakka.

Húsnæðismál barnaskólans á Eyrarbakka hafa verið sem heit kartafla um áratuga skeið.  Eina ákvörðunin sem hefur verið tekin er að taka ekki ákvörðun er varðar uppbyggingu skóla á Eyrarbakka.  Þessu verður að breyta og það strax.

Afmælisgjöf Árborgar í tilefni af 170 ára afmæli skólastarfs á Eyrarbakka ætti að vera trygg fjármögnun og upphaf framkvæmda á nýju skólahúsnæði á Eyrarbakka.

Þar til nýtt skólahúsnæði verður tekið í notkun er nauðsynlegt að bæta verulega þá aðstöðu sem nemendur, kennarar, stjórnendur og annað starfsfólk býr við á Eyrarbakka.

Ákvörðunin og ábyrgðin er hjá bæjarstjórn og nú er lag að bregðast við og að taka ákvörðun.