-6.6 C
Selfoss

Suðurland og 16 daga átakið

Vinsælast

Roðagylltar fánaborgir munu skrýða torg í Árborg dagana 25. nóvember til 10. desember næstkomandi, en þá stendur 16 daga alþjóðlegt átak gegn kynbundnu ofbeldi yfir. Upphaf átaksins markast af alþjóðadegi Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi og því lýkur á mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna. Með þessu vill Árborg taka þátt í átakinu og styðja málstað þess, en það er einmitt appelsínuguli, eða roðagyllti liturinn, sem er einkennislitur átaksins. Samskonar roðagyllta fána verður að sjá í sveitarfélögum á Suðurlandi þessa sömu daga, en öll sunnlensk sveitarfélög hafa sameinast í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi m.a. með samstarfi sínu um SIGURHÆÐIR – þjónustu við þolendur kynbundins ofbeldis á Suðurlandi. Það er Sor-optimistaklúbbur Suðurlands sem rekur SIGURHÆÐIR og hefur forgöngu um sunnlenska þátttöku í átakinu, en allir 19 klúbbar Soroptimista á landinu taka þátt.

6000 samtök í 187 löndum

Um 6000 samtök í 187 löndum, leidd af Sameinuðu þjóðunum taka þátt í átakinu til að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi gegn stúlkum og konum. Markmið átaksins, sem nú fer fram í þrítugasta sinn, er að beina athyglinni að alvarleika kynbundins ofbeldis, fræða almenning og hvetja til að ofbeldið verði stöðvað. Til þess þarf vitundarvakningu. Víða um land á Íslandi verða byggingar lýstar upp í roðagylltum lit og einnig sendiráð Íslands um allan heim.

Ein af hverjum þremur konum hafa verið beittar ofbeldi á lífsleiðinni og er það eitt útbreiddasta mannréttindabrot í heimi. Nærri 140 konur eru myrtar á hverjum degi af nánum fjölskyldumeðlimi. Um 15 milljónir núlifandi unglingsstúlkna, 15-19 ára, hafa verið beittar kynferðislegu ofbeldi. Konur eru 72% allra þeirra í heiminum sem hneppt eru í mansal og kynlífsþrælkun. 200 milljónir núlifandi stúlkna og kvenna hafa verið limlestar á kynfærum. Á hverri mínútu eru 23 barnungar stúlkur þvingaðar í hjónaband.

Ofbeldi með síma og tölvu að vopni

Sú hefð hefur skapast að ákveðið málefni verður í brennidepli  ár hvert. Áhersla íslenskra Soroptimista mun að þessu sinni beinast að stafrænu ofbeldi. Stafrænt ofbeldi fer fram gegnum tæki og tækni, svo sem síma, tölvu og samfélagsmiðla. Notkun á samfélagsmiðlum hefur aukist mikið undanfarin ár og sífellt fleiri konur og stúlkur eru áreittar, beittar ofbeldi, ofsóttar, niðurlægðar eða þeim ógnað gegnum þá. Með auknu aðgengi að stafrænum miðlum og útbreiðslu þeirra varð til ný og oft dulin nálgun á ofbeldi gegn konum og stúlkum þar sem oft er erfitt að rekja ofbeldið, verja sig gegn því og uppræta það. Það getur verið texti eða mynd með skilaboðum eða tölvupósti. Fólk sem verður fyrir stafrænu ofbeldi upplifir oft ótta, reiði, kvíða, þunglyndi og að vera ekki við stjórn á eigin lífi. Fólki finnst það ekki eiga neitt einkalíf, er líklegt til að einangra sig og upplifir hjálparleysi.

Tíunda hver kona hafði orðið fyrir stafrænu ofbeldi fyrir heimsfaraldur Covid-19 en nú hefur fjöldinn aukist mikið.

Ekkert ofbeldi takk í Tryggvaskála

Fimmtudaginn 25. nóvember, við upphaf átaksins, verður opinn fræðslufundur um SIGURHÆÐIR í Tryggvaskála á Selfossi og hefst hann kl. 19.30. Fjallað verðum um roðagyllta átakið, ofbeldi í ýmsum myndum, þar á meðal hið stafræna, meðferðarstarf SIGURHÆÐA og EMDR meðferðina sem þar er veitt sérstaklega. SIGURHÆÐIR er eina úrræðið sinnar tegundar á landinu sem býður upp á slíka áfallameðferð. Fundurinn verður innan settra sóttvarnarreglna.

Nýjar fréttir