-6.3 C
Selfoss

Baráttudagur gegn einelti

Vinsælast

8. nóvember ár hvert er baráttudagur gegn einelti. Heilsuleikskólinn Árbær hefur unnið með Vináttuverkefni Barnaheilla frá árinu 2017 en bangsinn Blær er táknmynd vináttunnar í verkefninu.

Í Vináttu er meðal annars lögð áhersla á að skoða menninguna í hópnum í heild sinni en ekki líta á einelti sem einstaklingsbundinn vanda. Mikilvægast af öllu er að sjá til þess að allir í hópnum komi út úr aðstæðum með reisn og ekki búa til sérstaka sökudólga og fórnarlömb. Aðalmarkmiðið á alltaf að vera það að bæta samskiptin sem eru á meðal barnanna í hópnum. Vinátta byggist á hugmyndafræði um að einelti sé félagslegt, menningarlegt og samskiptalegt mein en ekki einstaklingsbundinn vandi, þ.e. í vináttu er ekki einblínt á að líta á gerandann sem slæman, heldur hvernig hópurinn í heild getur brugðist við einelti og upprætt það. Einelti er slæmt mynstur eða samskipti sem þróast í aðstæðum og umhverfi þar sem umburðarlyndi skortir gagnvart margbreytileikanum.

Frá því að við í Árbæ byrjuðum með Vináttuverkefni Barnaheilla höfum við rætt sérstaklega mikið um umburðarlyndi fyrir öllum í kringum okkur (Eins djúpt og nemendur okkar geta skilið það) og er orðræðan hjá okkur sú að allir mega vera eins og þeir vilja – Við ráðum öll hvernig við klæðum okkur, klippum okkur og fleira og eins skiptir ekki máli hvernig hárlit við erum með, hvernig húðin okkar er á litinn, hvort við erum lítil eða stór, mjó eða feit og svo framvegis –

,,Hver og einn má vera eins og hann vill“ eru orð sem hljóma oft í Árbæ og er sú hugsjón til staðar hjá nemendum Árbæjar að pabbar mega vera í kjól rétt eins og mömmur mega vera í buxum.

Í tilefni af baráttudegi eineltis ákváðu nemendur á eldri deildum í Árbæ að lesa bækur um fjölbreytileikann þvert á deildar og ræddum vináttu sérstaklega í svokallaðri regnbogastund þar sem árgangar hittast. Nemendur á yngri deildum dönsuðu með Blæ bangsa og fengu myndir af Blæ til að lita.

Hver eldri deild fór einnig í samvinnuverkefni þar sem allir nemendur og starfsmenn deildanna stimpluðu handafar/fótafar og voru þar 4 húðlitir í boði. Þá tókum við myndir af augum, nefum munnum og hári sem allt er mismunandi milli einstaklinga og bjuggum að lokum til „Óla prik“ úr afrakstrinum. Allir litir voru notaðir og blasti við þegar „Óli prik“ kom uppá vegg fjölbreytileiki deildanna.

Það sem einkennir barnahópa þar sem einelti nær ekki að þrífast er hár þröskuldur umburðarlyndis þar sem sýnd er samkennd, börn njóta virðingar og viðurkenningar og allir finna sér sess í hópnum sama hvernig þau eru. Einstaklingur á ekki að þurfa að breyta einkennum sínum eða útliti til þess að falla inn í hóp.

Einelti er félagslegt og samfélagslegt vandamál og aldrei þolandans. Það er samfélagsleg ábyrgð okkar að bregðast við einelti og á sama tíma að halda uppi orðræðunni um að allir eigi rétt á sér í samfélaginu, burtséð frá húðlit, hárlit, augnlit, holdarfari, fötlun og svo mætti lengi telja

Fyrir hönd Heilsuleikskólans Árbæjar,

Helga Þórey, deildarstjóri í Árbæ

Nýjar fréttir