-8.7 C
Selfoss

Hátíðin er komin til að vera

Vinsælast

Skammdegishátíðinni Þollóween lauk á laugardagskvöldiðsl.þegar rúmlega 100 nornir söfnuðust saman á Nornaþingi í Ráðhúsinu. Þar var mikið um dýrðir og skemmtu sér allar konunglega með kústa sína, hatta og aðrar nauðsynja fylgihluti.

Það sama má segja um alla bæjarbúa í Þorlákshöfn sem flykktust á þá 16 viðburði sem haldnir voru í nýliðinni viku, þar sem allir gátu fundið eitthvað spennandi og hræðilegt. Flóttaherbergið í húsnæði Björgunarsveitarinnar Mannbjargar sem upphaflega átti að vera opið í 10 klst. þrefaldaði opnunartímann sinn því svo mikil var ásóknin. Þá komu hátt í 200 manns í fullorðins draugahús á Oddabraut 14 þar sem heimili Erlu í Þollóween nefndinni var algjörlega undirlagt og 15 leikarar að störfum. Börnin voru líka með spennustigið í hámarki alla vikuna og fjölmenntu á alla þá viðburði sem ætlaðir voru þeim, eins og ónotalegu sundstundina, skelfilegu skrautsmiðjuna, draugahús á vegum 10. bekkjar, bílabíó, grikk eða gott og margt, margt fleira.
Þetta var í fjórða sinn sem Þollóween var haldin og greinilegt að hátíðin er komin til að vera. Rúsínan í pylsuendanum var svo hvalurinn sem rak í fjöruna og ætla mátti að hefði verið hluti af dagskránni og vilja nefndarkonur meina að hann hafi einmitt verið það og sé afrakstur kyngimagnaðra sambanda sem þær hafa í aðrar víddir. Tengslanetin skipta jú öllu máli þegar kemur að vel heppnuðum hátíðarhöldum!

Meðfylgjandi eru myndir frá liðinni viku.

Nýjar fréttir