Snyrtivöruverslunin SHAY opnaði í nýja miðbænum sl. laugardag. Það voru þær systur Íris Bachmann og Margrét Lea Bachmann Haraldsdætur sem eiga og reka þessa verslun ásamt foreldrum sínum.
„Það hefur verið draumur hjá okkur lengi að stofna fyrirtæki. Margrét er í markaðsmálunum og tæknitröll fyrirtækisins á meðan ég er meira snyrtivörumegin. Við komum með sitthvoran hlutinn til borðsins,“ segir Íris, en sjálf er hún snyrti- og förðunarfræðingur og Margrét systir hennar er með BA í tískumarkaðssetningu og samskiptum.
„Lítið og sætt fjölskyldufyrirtæki“
Öll fjölskyldan kom saman að þessu verkefni. En móðir þeirra sá um að skreyta búðina og koma með hugmynd að útlitinu á meðan faðir þeirra, smiðurinn í fjölskyldunni, sá mikið um framkvæmdirnar inni í búðinni, allt frá parketlögn yfir í að smíða vöruhillurnar. „Mamma og pabbi eru stór partur af þessu öllu saman líka, þau eru það sem gerðu þessa hugmynd að veruleika“, segir Íris þakklát.
Opnunin gekk vonum framar
Það var komin röð út á götu áður en þær opnuðu kl. 13 á laugardaginn. Ásóknin var svo mikil að skammta þurfti inn í verslunina. „Það er búið að ganga vonum framar, þetta er búið að vera geggjað. Við erum ótrúlega þakklátar fyrir allt fólkið okkar, vini og ættingja, sem eru búin að hjálpa okkur á kvöldin að gera þessa búð að því sem hún er,“ segir Íris glöð í bragði.