3.4 C
Selfoss

Byggðaráðstefna 2021 um menntamál haldin dagana 26.-27. október

Vinsælast

Í þessari viku verður áhugaverð tveggja daga ráðstefna um menntamál haldin á Hótel Kötlu í Mýrdal. Ráðstefnan ber yfirskriftina „Menntun án staðsetningar?“ er ein af byggðaráðstefnum sem Byggðastofnun ásamt stendur að annað hvert ár í samstarfi við Samband sveitarfélaga og landshlutasamtökin, ásamt því sveitarfélagi þar sem ráðstefnan er haldin hverju sinni. Sú sem nú er haldin er sú fjórða í röðinni. Tvívegis hefur orðið að fresta ráðstefnunni vegna Covid-19, en upphaflega átti að halda hana haustið 2020. 

Tilgangur með byggðaráðstefnunum er að tengja saman fræðilega og hagnýta þekkingu á byggðaþróun með það að markmiði að stuðla að sjálfbærri þróun byggðar um allt land. Ráðstefnurnar eru vettvangur fólks úr háskólum, stjórnsýslu, sveitastjórnum, skólakerfinu og annarra sem áhuga hafa á byggðaþróun og menntamálum. Leitast er við að ná fram ólíkum sjónarmiðum þeirra sem vinna að rannsóknum og stefnumótun á vettvangi byggðamála með áherslu á tiltekinn málaflokk hverju sinni, að þessu sinni menntamál. Hver ráðstefna hefur sitt meginþema.

Umfjöllunarefni ráðstefnunnar eru margvísleg. Flutt verða sextán erindi afar fjölbreytt að efni og fyrirlesarar koma flestir frá háskólum, stofnunum eða sveitarfélögum. Það er von skipuleggjanda að ráðstefnan veki fólk til umhugsunar um stöðu og framtíð menntamála, í landsbyggðunum og ekki síst í hinum dreifðu byggðum. Undanfarið eitt og hálfa árið hafa orðið stórstígar breytingar í þá veru að fjarsamkomur af ýmsu tagi eru orðin daglegt brauð. Nú er af alvöru farið að ræða möguleika á alls konar fjarþjónustu, í skólakerfinu, heilbrigðisþjónustu og eflaust víðar.

Fyrirlestrarnir fjalla meðal annars um hvernig sveitarfélagið Hornafjörður í samstarfi við Háskóla Íslands hefur nálgast viðfangsefnið starfsþróun kennara og starfsfólks í grunnskólum, um skólaþjónustu sveitarfélaga, leiðir til að bæta þjónustu við skólana út um landið, nýtingu tækni til að auka tækifæri nemenda og jafna aðbúnað, fjarkennslu raungreina, áhrif aukinnar menntunar á búsetu,  stöðu og hlutverk þekkingarsetra, hvernig Fab Lab smiðjur geta eflt áhuga og færni í raun-, verk- og tæknigreinum og menntun án staðsetningar með skóla í skýjum.

Að undirbúningi þessarar ráðstefnu hafa komið auk Byggðastofnunar, Samband íslenskra sveitarfélaga, SASS, Háskólafélag Suðurlands og Mýrdalshreppur.

Nýjar fréttir