3.9 C
Selfoss

„Bækur sem fá mig til að sjá lífið í nýju ljósi“

Vinsælast

Eyjólfur Már Sigurðsson er fæddur og uppalinn á Selfossi. Hann nam málvísindi og kennslufræði í Frakklandi eftir B.A. próf í frönsku frá Háskóla Íslands. Núna er hann forstöðumaður Tungumálamiðstöðvar þess sama skóla. 

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Ég er að lesa Over the Rainbow eftir hina frönsku Constance Joly og ljóðabókina Ég þakka eftir Sigurð Ingólfsson. Over the Rainbow er frábær lesning sem vinkona mín og Parísardaman Kristín Jónsdóttir gaukaði að mér. Ég reyni að lesa eins mikið og ég get á frönsku til að halda henni við.  Ljóðabókin Ég þakka er þakkargjörð til lífsins, listarinnar og ástarinnar. Einföld en mjög falleg og einlæg ljóð frá einu af okkar bestu núlifandi skáldum. 

En hvers konar bækur höfða helst til þín?

Bækur sem fá mig til að sjá lífið í nýju ljósi. Fyrst og fremst skáldsögur en líka ljóð.

Ertu alinn upp við bóklestur?

Bæði foreldrar mínir og eldri systkini lásu mikið en ég held að Hrönn systir hafi toppað alla í fjölskyldunni (enda bókasafnsfræðingur í dag). Líklega var það hún sem kenndi mér að lesa og fyrsta bókin sem ég man eftir er Benni og Bára. Bækur Enid Blyton voru mín helsta afþreying lengi vel ásamt Tinna, Ástríki og Lukku Láka en svo tóku Hammond Innes & Co við og ég varð fastagestur á bókasafninu hjá Pétri í Austurkoti. Ég á nokkrar uppáhaldsbækur en ef ég ætti að nefna bara eina þá yrði það líklega Ódauðleikinn eftir Milan Kundera. Í þeirri bók er skáldsöguformið tekið á nýtt stig.

Eitthvað sem einkennir lestrarvenjur þínar?

Vinnu minnar vegna þarf ég að lesa mikið af texta sem er gjörsneiddur allri ljóðrænu svo það er góð hvíld að lesa lýríska texta, það er fagurbókmenntir, bæði ljóð og skáldsögur. Eins og svo margir þá les ég mest á kvöldin og get eiginlega ekki sofnað án þess. Ég er oft með margar bækur í gangi í einu og er mjög fljótur að gefast upp á þeim ef þær höfða ekki til mín. 

Einhverjir uppáhaldshöfundar?

Ég á mér marga uppáhaldshöfunda og líklega er það lýríkin í textum þeirra sem heillar mig. Sem dæmi má nefna: Milan Kundera, Michel Houellebecq, Leïla Slimani, Gabriel García Márquez, Jón Kalman Stefánsson, Auði Övu Ólafsdóttur, Bergþóru Snæbjörnsdóttur, Fríðu Ísberg, Sigurð Ingólfsson…

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Já, en margar þeirra hafa líka flutt mig fljótt og örugglega yfir í draumalandið.

En að lokum Eyjólfur, hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Ljóðabækur. 

Lestrarhestur númer 127.
Umsjón Jón Özur Snorrason

Nýjar fréttir