7.3 C
Selfoss

Söfnuðu tæpum 500.000 kr. á bleikum degi

Vinsælast

Fjölmargir lögðu leið sína á hársnyrtistofuna Lobbýið á Selfossi á laugardaginn sl. Tilefnið var söfnunarátak fyrir Krabbameinsfélag Árnessýslu, en þá gafst fólki kostur á að koma í klippingu, skeggsnyrtingu, blástur eða hárþvott og allur ágóðinn myndi renna til Krabbameinsfélagsins. Söfnunin gekk vonum framar og náðu þau að safna samanlagt 490.300 kr. í gegnum þjónustu og vörusölu, en þar af söfnuðust 54.000 kr. í gegnum sölu á bleiku hárburstunum, sem rann beint til Krabbameinsfélags Íslands.

Fórum frekar blint út í þetta

„Við höfðum í rauninni ekki hugmynd um það hvernig viðbrögð við myndum fá við þessu. Við fórum algjörlega blint í þetta og pössuðum okkur á því að vera ekki með of miklar væntingar,“ segir Rebekka Kristinsdóttir, einn af eigendum Lobb-ýsins. En 20 mín. fyrir opnun var staðurinn strax orðinn troðfullur af fólki sem beið spennt eftir að setjast í stólinn.

„Við starfsfólk Lobbýsins viljum þakka öllum þeim sem komu að þessum degi með okkur, hvort sem það eru fyrirtæki sem styrktu með happdrættisvinningum, bakkelsi eða drykkjum eða einstaklingum sem gerðu sér ferð til okkar til að leggja þessu góða málefni lið,“ segir Rebekka í lokin.

Nýjar fréttir