-0.7 C
Selfoss

Markaðsstofa Suðurlands undirbýr verkefnið Vörðu

Vinsælast

Fulltrúar Markaðsstofu Suðurlands tóku í byrjun september þátt í vinnustofum á vegum Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Vinnustofurnar voru liður í undirbúningi á verkefninu Varða sem er ný nálgun á heildræna stjórnun áfangastaða. Vörður, merkisstaðir á Íslandi, eru fjölsóttir ferðamannastaðir sem teljast einstakir á lands- eða heimsvísu. Fyrstu áfangastaðirnir sem hefja ferli til að verða Vörður eru Gullfoss, Geysir, Þingvallaþjóðgarður og Jökulsárlón. Vinnustofunum stýrðu franskir ráðgjafar, Johan, Ann og Alan, en þau hafa komið að sambærilegri vinnu í Frakklandi í gegnum verkefnið Grand Sites de France. Auk þeirra og fulltrúa ráðuneytanna tveggja tóku þátt í vinnustofunum helstu hagaðilar á svæðinu s.s. fulltrúar sveitarfélaga, þjóðgarða, Umhverfisstofnunar og annarra sem hafa með uppbyggingu á stöðunum að gera.

Vörður verða markaðssettar til íslenskra og erlendra ferðamanna og er ætlunin að úr verði þekkt merki sem ferðamenn leita uppi við skipulagningu á ferðalögum sínum. Vörðum er ætlað að leiða ferðamenn áfram á leið sinni um landið og jafnframt að vera öðrum áfangastöðum fyrirmynd um stjórnun, umsjón, skipulag, aðbúnað, þjónustu, náttúruvernd, öryggi og annað sem varðar móttöku ferðamanna.

Þeir áfangastaðir sem verða að Vörðum eru fjölsóttir áfangastaðir sem ferðamenn sækja heim allt árið um kring. Við umsjón þeirra er unnið að sjálfbærni á öllum sviðum, umhverfislegri, samfélagslegri og efnahagslegri. Staðirnir þurfa að sýna fram á langtímaskuldbindingu til þess að framfylgja skilgreindum viðmiðum við stjórnun og skipulagningu, meðal annars hvað varðar hönnun innviða, aðgengi, fræðslu, öryggi, álagsstýringu, stafræna innviði og fleira.

Var það samdóma álit þátttakenda vinnustofanna að vel hefði tekist til og að með þeim væri grunnurinn lagður að auknu samtali og enn faglegri umgjörð utan um þessa fjölsóttu áfangastaði. Markaðsstofan mun áfram hafa aðkomu að verkefninu sem hluti af verkefnum Áfangastaðastofu.

Nýjar fréttir