Góðverk til þess eins að gleðja og létta öðrum lífið er eitt af því besta sem hægt er að gera. Jésús sagði: Sælla er að gefa en þiggja og margir hafa tekið þannig til orða í gegnum tíðina. Í þessu spakmæli er fólginn sannleikur því rannsóknir hafa sýnt að það að gera góðverk er tengt betri andlegri og líkamlegri heilsu. Sem dæmi um það er lægri blóðþrýstingur, aukið sjálfstraust, minni líkur á þunglyndi, minni streita og það getur jafnvel leitt til lengra lífs og aukinnar lífshamingju. Ekki nóg með það, þá veitir það manni þessa góðu hlýju tilfinningu þegar maður veit að maður er að láta gott af sér leiða.
Kitlar þetta ekki löngun þína til að gera eitthvað í málunum? Verkefnið Jól í skókassa er kjörið tækifæri til að gera góðverk og það er einmitt að rúlla af stað um þessar mundir. Jól í skókassa snýst um að útbúa fallegar jólagjafir, pakkaðar inn í skókassa, sem sendar verða til barna sem minna mega sín í Úkraínu. Gjöfunum er meðal annars dreift á munaðarleysingjahæli, barnaspítala og til einstæðra mæðra.
Til að taka þátt í verkefninu þarftu að útvega þér skókassa. Í kassann á svo að fara eitt úr hverjum flokki: Skóladót, leikföng, hreinlætisvörur, sælgæti og föt. Kassanum er svo pakkað inn eftir kúnstarinnar reglum og skilað til okkar í Selfosskirkju. Nánari upplýsingar um hvað má og hvað má ekki fara í kassann er að finna inni á síðunni kfum.is/skokassar.
Að útbúa kassann er uppskrift af góðri samverustund með okkar nánustu. Allir geta lagt sitt á vogaskálarnar og gefið af sér til þeirra sem minna mega sín. Jól í skókassa er góð upphitun og forsmekkurinn að jólunum. Það eru jú minna en 75 dagar til jóla.
Kassanum má skila til okkar í Selfosskirkju á þriðjudögum á milli klukkan 13:00 og 18:30, á miðvikudögum og fimmtudögum á milli kl. 13:00 og 16:00 og svo má að sjálfsögðu afhenda okkur kassann á leiðinni inn í messu eða í sunnudagaskólanum á sunnudögum kl. 11:00.
Skilafrestur er til og með fimmtudeginum 4. nóvember. Frekari upplýsingar um verkefnið er að finna inni á kfum.is/skokassar.