3.4 C
Selfoss

Fagbréf og raunfærnimat í atvinnulífinu

Vinsælast

Það ríkti mikil gleði hjá Sláturfélagi Suðurlands á Hvolsvelli þegar fyrsti hópurinn sem hefur farið í raunfærnimat á móti viðmiðum atvinnulífsins fékk afhent sín fagbréf. Sláturfélagið (SS), Fræðslunetið símenntun á Suðurlandi og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) gerðu með sér samning í september 2019 um tilraunaverkefni í þessu skyni. Verkefnið tafðist nokkuð vegna heimsfaraldursins en hægt var að taka upp þráðinn aftur nú í haust og ljúka verkefninu. Í verkefninu fólst að þjálfa matsmenn innan fyrirtækisins, sem síðan mátu hæfni starfsfólks miðað við starfaprófíl sem heitir: „Sérþjálfaður starfsmaður í matvælaiðnaði“.

Í framhaldinu var síðan gerð starfsþjálfunar- og endurmenntunaráætlun. Fræðslunetið sá um að halda námskeið fyrir starfsfólkið og sótti það þrjú námskeið, alls 72 stundir.

Upphaflega fóru alls 20 starfsmenn í raunfærnimatið og 13 þeirra luku þjálfun og námskeiðum og fengu afhent fagbréfi í matvælavinnslu. Fagbréfið staðfestir hæfni sem: „Sérhæfður starfsmaður í matvælaiðnaði“.

Alls fóru 12 aðilar á þjálfunarnámskeið í raunfærnimati, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins sá um þjálfunina en þátttakendur komu frá SS og Fræðslunetinu.

Viðamikil þýðingarvinna og túlkun fólst einnig í verkefninu. Þýða þurfti alla sjálfsmatslista og einnig þurfti að túlka allt námið sem fór fram því mikill meirihluti þátttakenda kemur frá Póllandi. Þau sem sáu um túlkun og þýðingar voru þau; Jaroslaw Dudziak, Rafal Figlarski, Monika Figlarski, Aneta Tomczy og Katarzyna Krupinska.

Það var samdóma álit þeirra sem að þessu lærdómsríka verkefni komu að vel hafi tekist til og að það sé afar mikilvægt að stuðla að aukinni færni starfsfólks og framþróun í starfi. Raunfærnimat á móti viðmiðum atvinnulífsins er ein leiðin til þess og standa vonir til þess að áframhald verði á slíku í atvinnulífinu.

Þau sem sáu um framkvæmd verkefnisins voru fyrir hönd SS;  Olga Mörk Valsdóttir, verksmiðjustjóri, Oddur Árnason, fagmálastjóri og Þórhildur Þórhallsdóttir starfsmannasstjóri. Fyrir hönd Fræðslunetsins;  Sólveig R. Kristinsdóttir, náms- og starfsráðgjafi og Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir, verkefnastjóri og Lilja Rós Óskarsdóttir, verkefnastjóri fyrir hönd FA.

Nýjar fréttir