-8.9 C
Selfoss

Starf félagsmiðstöðva mikilvæg forvörn

Vinsælast

Í síðasta tölublaði Dagskrárinnar var fjallað um ofbeldismál sem hafa komið upp í auknum mæli hér innan sveitarfélagsins Árborgar. Fjallað var um þau úrræði sem lögregla, barnavernd og aðrar stofnanir hafa á sínum snærum. Þau úrræði eru mikilvæg og nauðsynleg til þess að grípa inn í þegar atburðarás er hafin eða ofbeldi hefur átt sér stað. 

Félagsmiðstöðin Zelsíuz hefur verið starfrækt í sveitarfélaginu frá árinu 1980. Þar er boðið upp á uppbyggilegt frístundastarf fyrir 10-16 ára börn og unglinga í frítíma þeirra. Lögð er áhersla á að ná til þeirra barna og unglinga sem þarfnast félagslegs stuðnings, efla félagsfærni og að bjóða upp á fjölbreytileg viðfangsefni. Félagsmiðstöðin stendur fyrir stórum og smáum viðburðum, sértæku hópastarfi, klúbbastarfi ásamt opnu starfi þrjú kvöld í viku á Selfossi og einu sinni í viku á Stokkseyri. Hlutverk félagsmiðstöðvarinnar er tvíþætt. Annars vegar að bjóða börnum og unglingum á aldrinum 10 – 16 ára upp á frístundastarf sem hefur forvarna-, uppeldis- og menntunargildi og tekur mið af aldri þeirra og þroska. Hins vegar að bjóða upp á aðstöðu til afþreyingar og samveru með jafnöldrum í öruggu umhverfi undir handleiðslu starfsmanna. Áhersla er lögð á að virkja börn og unglinga til virkrar þátttöku og framkvæmda í starfinu, einkum þau sem þurfa sérstaka hvatningu og stuðning vegna félagslegra aðstæðna.

Það er mikilvægt að koma því á framfæri að við erum hér fyrir unglingana okkar. Ef grunur leikur á að unglingur sé í vanda, vilji efla félagsfærni eða auka félagslega virkni þá erum við alltaf tilbúin að leiðbeina, styðja og vera til staðar. Okkar starf er að standa við bakið á unglingunum okkar, sama í hvaða stöðu þeir eru. Öllum er frjálst að hafa samband og hægt er að hafa samband á öllum okkar samfélagsmiðlum eða gegnum tölvupóst. Einnig eru allar upplýsingar inni á heimasíðu Árborgar. Þið finnið okkur a Facebook (Félagsmiðstöðin Zelsiuz) og á Instagram (zelsiuz123).

Bestu kveðjur,
Dagbjört Harðardóttir,
forstöðumaður frístundahúsa Árborgar,
dagbjort.hardar@arborg.is.

Nýjar fréttir