Endurskoðuð stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlandið Dyrhólaey hefur verið undirrituð og staðfest af umhverfis- og auðlindaráðherra. Dyrhólaey er um 120 metra hár höfði sem gengur í sjó fram við suðurströnd Íslands og hefur um langa hríð verið vinsæll viðkomustaður ferðafólks.
Dyrhólaey var friðlýst sem friðland árið 1978. Verndargildi svæðisins felur í sér vernd þeirrar landslagsheildar sem er að finna í og við Dyrhólaey og búsvæða fugla sem halda til á slíkum svæðum. Dyrhólaey er í stöðugri mótun vegna ágangs sjávar og gróðurfarið ber þess merki að eyjan liggur við opna brimströnd.
Með stjórnunar- og verndaráætluninni er stefnt að því að standa vörð um og efla jákvæða ímynd svæðisins. Í áætluninni er lögð fram stefnumótun til 10 ára, ásamt hlaupandi aðgerðaáætlun til þriggja ára. Markmiðið með gerð hennar er að leggja fram stefnu um verndun friðlandsins og hvernig viðhalda skuli verndargildi þess þannig að sem mest sátt ríki um.
Stjórnunar- og verndaráætlunin er unnin í samvinnu við sveitarfélag, landeigendur og hagsmunaaðila og er hugsuð sem stjórntæki til að móta framtíðarsýn svæðisins.
Á vef Umhverfisstofnunar má sjá nánar um stjórnunar- og verndaráætlunina, eða með því að smella á hlekkinn hér að neðan.
Sjá nánar um stjórnunar- og verndaráætlunina, aðgerðaáætlun og greinargerð með athugasemdum.