-5.5 C
Selfoss

Samstilltur og jákvæður nemendahópur

Vinsælast

Fullyrðingin Heilbrigð sál í hraustum líkama á prýðilega við í starfi FSu. Og jafnvel þótt hún sé sögð á latínu Mens sana in corpore sano og rakin til rómverska skáldsins Juvenal sem uppi var 200 árum fyrir krist. Þetta vita þeir sem stunda göngur og hlaup, sund og jóga og yfirleitt alla almenna útvist og hreyfingu. Í íþróttaáfanganum útivist og fjallgöngur eða ÍÞRÓ2ÚF02 er hlúð að þessari grundvallarstaðreynd. Þar er farið í fimm fjallgöngur á önn auk þess sem ratvísi er kennd, umgengni við náttúruna og hvernig á að klæða sig til fjalla.

Þann 8. september síðastliðinn gekk hópur nítján nemenda FSu á Fimmvörðuháls undir leiðsögn íþróttakennaranna Ásdísar Ingvarsdóttur og Sverris Ingibjartssonar auk skólameistarans Olgu Lísu Garðarsdóttur sem reyndar líka er íþróttakennari að mennt. Þetta er alkunn og stórkostleg gönguleið sem liggur milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls, um 25 kílómetra löng. Lagt var af stað frá Skógum kl 10:00 og komið niður í Bása í Þórsmörk klukkan 19:00. Þar beið rúta sem flutti alsælan hópinn heim. Að sögn Sverris íþróttakennara var veðrið í byrjun með besta móti, sól og hægur vindur „en á hæsta hluta leiðarinnar mættum við þoku með súld. Á Morinsheiði gengum við svo niður úr þokunni og þá blasti við fegurð Goðalands og Þórsmerkur.” Sverrir lagði líka áherslu á það hversu samstilltur og jákvæður nemendahópurinn var og allir svo þakklátir og glaður í lok göngunnar sem gerði stemninguna í ferðinni einstaka. Það verður seint ofsagt að vettvangsferðir í námi nemenda, af hvaða tagi sem er, eru mikilvægar. -jöz

 

Nýjar fréttir