-9.4 C
Selfoss

Bækur hafa bjargað mér frá félagslegum uppákomum

Vinsælast

Hrönn Sigurðardóttir Erludóttir er fædd og uppalin á Selfossi. Hún bjó í Reykjavík í nokkur ár en flutti síðan aftur á Selfoss. Hrönn er menntaður bókasafns- og upplýsingafræðingur frá Háskóla Íslands og vinnur á besta vinnustað í heimi að eigin mati, Skólasafni Sunnulækjarskóla.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Ég er að lesa bækurnar Sjáandinn eftir Stephen King og Snerting eftir Ólaf Jóhann Ólafsson, báðar afskaplega góðar og ég mæli heilshugar með þeim. Síðan er ég að hlusta á Before We Were Yours eftir Lisu Wingate á Audible sem ég ætla svo sannarlega að vona að verði þýdd fljótlega svo að sem flestir geti notið þeirrar bókar. Það sem vakti áhuga minn á þessum bókum var að vinkonur mínar voru að lesa þær og mæltu með þeim. Annars verð ég alltaf svolítið skelkuð þegar ég les Stephen King eftir að hann hræddi mig svakalega með bókinni Visnaðu. Hef ekki lesið hræðilegri bók um ævina.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Allskonar bækur höfða til mín en þó mest spennubækur, sögulegar skáldsögur og bækur um tímaflakk.

Ertu alin upp við lestur?

Mamma og pabbi lásu og lesa bæði, þannig að ég er svo sannarlega alin upp við lestur og bækur hafa fylgt mér frá því áður en ég man eftir mér. Mamma segir mér að í æsku hafi ég alltaf verið með bók í höndunum og lesið hástöfum upp úr henni, jafnvel áður en ég kunni almennilega að tala. Mín elsta minning er frá því að ég sat á eldhúsgólfinu heima og var að lesa fyrir mömmu úr ljóðabókinni Segðu það börnum, segðu það góðum börnum sem var uppáhaldsbókin mín á þeim tíma. Mamma var eitthvað að sýsla við eldavélina og Eygló, elsta systir mín, sagði mér, um leið og hún gekk hjá, að ég sneri bókinni vitlaust. Þetta var svona aha moment, augnablikið þar sem ég áttaði mig á því að það skipti máli í hvaða átt er lesið og að bækur ættu að snúa einhvern veginn. Mig langar að nota þetta tækifæri og senda það út í alheiminn að ef einhver á þessa bók; Segðu það börnum, segðu það góðum börnum eftir Stefán Jónsson og langar að gefa mér hana þá yrði ég voða þakklát. Pabbi las fyrir mig í gamla daga og ég man sérstaklega eftir þegar hann las bókina um Alfinn álfakonung vegna þess að mér fannst hún svo hræðileg. Þarna hefur mögulega kviknað áhugi minn á spennubókum. Það er eitthvað kitlandi við að lesa hrylling. Magga systir mín, las líka fyrir mig í æsku og það var hún sem kenndi mér að lesa þegar ég var cirka fimm ára, sem var talsvert afrek þar sem hún er bara tveimur árum eldri en ég. Magga hefur enda alla tíð verið afar lausnamiðuð. Eftir það las ég allt sem ég komst yfir. Meðal annars allar bækurnar eftir Enid Blyton og Astrid Lindgren og bækurnar Trygg ertu Toppa og Sörli sonur Toppu. Á þessum árum máttu börn bara taka eina bók á dag á bókasafninu en ef ég fann fleiri bækur sem mig langaði að lesa þá faldi ég þær bara á bak við ævisögur í fullorðinsdeildinni og gekk svo að þeim vísum daginn eftir.

Segðu frá lestrarvenjum þínum.

Ég les alltaf ef ég á lausa stund. Það er frábært að geta horfið smástund frá amstri dagsins inn í þá ævintýraveröld sem bækur bjóða upp á. Ég les á hverju kvöldi áður en ég fer að sofa og ég er alltaf með bók í töskunni enda hafa bækur bjargað mér frá mörgum félagslegum uppákomum.

Áttu þér uppáhaldshöfunda?

Ég á mér marga uppáhaldshöfunda, Ólafur Jóhann Ólafsson, Jón Kalman Stefánsson, Bergþóra Snæbjörnsdóttir, Stephen King og Jodi Picault eru þau sem koma fyrst upp í hugann en ég er ábyggilega að gleyma mörgum sem eru ofarlega á lista hjá mér.

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Bækur hafa oft og iðulega rænt mig svefni. Í fljótu bragði man ég eftir að bækurnar Á ég að gæta systur minnar eftir Jodi Picault og Svínshöfuð eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur héldu fyrir mér vöku því ég sneri þeim  við um leið og ég var búin með þær og byrjaði strax aftur. Einnig hélt Húsið á ströndinni eftir Daphne Du Maurier fyrir mér vöku en hún fjallar einmitt um tímaflakk.

Hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Það er góð spurning. Mig myndi langa mest til að skrifa barnabækur en það er ekkert grín að skrifa góða barnabók sem hittir í mark þannig að ef það gengi ekki upp þá væri plan B að skrifa sögulega skáldsögu.

 

____________________________________________________________

Umsjón með Lestrarhestinum hefur Jón Özur Snorrason

Nýjar fréttir