-6.6 C
Selfoss

Sósíalismi fyrir Suðurland

Vinsælast

Suðurland er gjöfull landshluti. Hér er að finna grænar sveitir, gjöful fiskimið, fiskeldi á landi, raforku, skógræktir, hita í jörðu, stórbrotna náttúru, ríka sögu og kraftmikið fólk, svo ekki sé talað um ferðamannaiðnaðinn. Á Suðurlandi á enginn að þurfa að líða skort því hér er gnótt gæða en raunin er sú að hér finnst fátækt. Bæði meðal bænda og inni í þéttbýliskjörnum. Á Suðurlandi eru börn sem fara svöng að sofa og börn sem geta ekki stundað tómstundir. Á Suðurlandi eru til eldri borgarar sem lepja dauðann úr skel eftir að hafa skilað af sér ævistarfinu en þurfa svo að neita sér um læknisþjónustu vegna fátæktar. Á Suðurlandi er til fólk sem vinnur myrkrana á milli af mikilli eljusemi og dugnaði en baslar samt við of há útgjöld og framfærslukostnað fjölskyldu sinnar. Á Suðurlandi finnast ungmenni sem geta ekki farið í framhaldskóla vegna fátæktar. Á Suðurlandi finnst raunveruleg fátækt rétt eins og í öllum öðrum landshlutum og við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að fátækt er pólitísk ákvörðun og að það er á okkar ábyrgð sem samfélags að uppræta hana. Á meðan öll almannakerfi eru skipulögð með það fyrir augum að halda ákveðnum þjóðfélagshópi í fátækt eru plástralausnir gagnslausar og gera fátt annað en að flækja kerfið. Sanngjarn skattur á hin ofurríku, 1.5% skattur á hverja milljón umfram 200 milljónir í hreina eign, telja sósíalistar sanngjarnan skatt á auðmenn. Afnám kvótakerfisins í núverandi mynd telja sósíalistar eina af grunnforsendum þess að skapa hér eðlilegt samfélag þar sem arðurinn af náttúrulegum auðlindum rennur til okkar, samfélagsins, í stað þess að renna í vasa örfárra milljarðamæringa.

Sósíalistar boða til kosningafundar í suðursalnum á Hótel Selfossi miðvikudagskvöldið 22. september þar sem frambjóðendur kjördæmisins mæta.

Birna Eik Benediktsdóttir
2. sæti á lista Sósíalista í Suðurkjördæmi

Nýjar fréttir