Komandi kosningar eru gríðarlega mikilvægar. Við horfum fram á neyðarástand í heiminum sökum loftslagsbreytinga af mannavöldum, við þurfum að ná viðspyrnu á ný eftir heimsfaraldur covid 19, við þurfum kerfisbreytingar til að mæta áskorunum fjórðu iðnbyltingarinnar og við þurfum að auka réttlæti í samfélaginu okkar svo almannahagsmunir gangi alltaf framar sérhagsmunum og allir einstaklingar, heimili og fyrirtæki njóti jafnræðis. Síðasta ríkisstjórn var stjórn íhaldsemi og kyrrstöðu. Enda stofnuð frá hægri til vinstri með Framsókn. Þeir flokkar munu ekki skila okkur frjálslyndi og lausnarmiðuðum vilja til breytinga. Það mun flokkur eins og Viðreisn aftur móti gera. Flokkur sem er óhræddur við að rugga bátnum til að ná fram nauðsynlegum breytingum, okkur öllum í hag.
Festum gengi krónunnar við Evru
Við í Viðreisn viljum til að mynda að Ísland geri tvíhliða samning við Evrópusambandið um samstarf í gjaldeyrismálum í tengslum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og festi gengi krónunnar við Evru. Með þeirri aðgerð myndi íslenska meðalfjölskyldan eiga um 72 þúsund kr. meira til ráðstöfunar – um hver mánaðarmót!
Grænt og loftslagsvænt samfélag
Við höfum alla burði til að draga stórlega úr losun gróðurhúsalofttegunda og keyra samfélagið okkar á grænni, innlendri orku fyrir árið 2040. Við verðum því að taka stærri skref strax og koma á hvötum þannig að þeir borgi sem menga. Við þurfum líka að endurheimta fleiri þúsundir ferkílómetra af röskuðum vistkerfum til að draga úr losun frá landi. Sjálfbær auðlindanýting og ábyrg umgengni við náttúruauðlindir, þar sem náttúruvernd helst í hendur við nýtingu, er lykillinn að grænni framtíð. Fyrir okkur í Viðreisn er það kristaltært að öll mál eru umhverfismál og þau eiga að vera grænn þráður í gegnum alla ákvarðanatöku stjórnvalda.
Þjónustuvæðum heilbrigðiskerfið
Við viljum þjónustuvæða heilbrigðiskerfið með þarfir notenda í huga, stytta biðlistana og bæta aðgengi allra landsmanna að heilbrigðisþjónustu, óháð aldri, efnahag og búsetu. Við viljum líka einfalda heilbrigðiskerfið, gera almannatryggingarnar sveigjanlegar og niðurgreiða sálfræðiþjónustu.
Réttlátur sjávarútvegur
Við í Viðreisn viljum tryggja sátt um sjávarútveginn til framtíðar. Við viljum að sanngjarnt verð sé greitt fyrir aðgang að auðlindunum okkar og að samningar um auðlindanýtingu séu tímabundnir. Við viljum líka að í stað veiðileyfagjalds verði ákveðinn hluti kvótans settur á markað á hverju ári og seldur sem nýtingarsamningar til 20-30 ára. Þannig megi eyða pólitískri óvissu og staðfesta eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni.
Ég hvet alla til að kynna sér málefnastefnurnar okkar nánar á vidreisn.is og kjósa síðan með almannahagsmunum umfram sérhagsmunum komandi laugardag.
Þórunn Wolfram
PhD í umhverfisfræðum og 2. sæti á lista Viðreisnar í Suðurkjördæmi