-8.3 C
Selfoss

Dagur íslenskrar náttúru hjá Heklukoti

Vinsælast

Leikskólinn Heklukot er fimm deilda leikskóli á Hellu með um 75 nemendur. Við vinnum eftir stefnu Skóla á grænni grein og höfum fengið Grænfánann í fimm skipti og stefnum að því að fá þann sjötta í vor.

Mikið er unnið með umhverfið í huga í öllu okkar starfi í leikskólanum. Við erum dugleg að flokka allan úrgang, matarafgangar eru gefnir hænum og settir í moltu sem ekki nýtast hænunum, Rikki endurvinnsluhvolpur skiptist á að fara heim með börnunum yfir helgi og þannig myndast tenging á milli heimilis og leikskóla tengd grænfánanum. 

Elsti árgangurinn fer í hverri viku í útikennslu og er leynistaðurinn okkar mikið notaður. Þar er farið í leiki tengda stærðfræði og málörvun, einnig er gróðurinn í umhverfinu skoðaður og hvernig náttúran breytist eftir árstíðum. Börnin fá einnig tækifæri til þess að nota ímyndunaraflið og úr verða margir skemmtilegir leikir sem þau eiga frumkvæði af.

Í tilefni af degi íslenskrar náttúru fimmtudaginn 16. september síðastliðinn var ákveðið að fara út og safna birkifræjum á leynistaðnum okkar. Elstu þrír árgangarnir fóru út með taupoka sem saumaðir voru í leikskólanum úr afgangs efni. 

Áður en lagt var af stað að safna birkifræjum var farið yfir það með börnum hvernig best væri að safna fræjunum og setja í taupoka. Best er að safna birkifræjum seint í september eða í október. Oft er mest af fræi á ungum trjám og er það góð regla að safna af kröftugum og fallega vöxnum trjám. Garðar Þorfinnsson hjá Landgræðslunni kom svo daginn eftir og afhentum við honum birkifræin sem börnin söfnuðu.

Þegar elstu börnin útskrifast úr leikskólanum á vorin gefur Landgræðslan börnunum eina birkiplöntu sem þau geta gróðursett heima hjá sér og fylgst með vaxa og dafna.

F.h. grænfánanefndar Heklukots,
Hrafnhildur Andrésdóttir

Nýjar fréttir