Fyrir stuttu varð það fréttaefni að skortur væri á sellerí í verslunum hér á landi. Beindust spjótin þá að ráðherra landbúnaðarmála hér á landi sem enn er Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Ráðherrann brást hart við og minnti okkur á afstöðu sína í þessum málaflokki í sérstakri færslu á fésbókarsíðu sinni. Þar segir m.a. „Hið rétta er að í umræddu frumvarpi sem ég lagði fram haustið 2019 var lagt til að innflutningur á sellerí og fleiri landbúnaðarvörum væri tollfrjáls allt árið. Frumvarpinu var hins vegar breytt í meðförum þingsins.“ Já það lá að! Þingið var því ekki sammála að gera fjölda búvara (því frumvarpið fjallaði ekki aðeins um sellerí) tollfrjálsar allt árið. Stjórnmálin eru oft á tíðum óútreiknanleg eins og í þessu tilviki.
Við þetta rifjaðist upp andsvar samflokksmanns ráðherrans frá því í desember 2020, Haraldar Benediktssonar. Eftirfarandi orð lét hann falla í umræðum á alþingi þann 16. Desember: „Herra forseti. Ég geri engar athugasemdir við að við opinberum hvort sína skoðun í Sjálfstæðisflokknum í þessum málum vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn er regnhlíf margra skoðana og það er hlutverk okkar að takast á um þær og komast að sameiginlegri niðurstöðu…“
Nýlega fór ég af heilindum inn á vettvang stjórnmála en ég hafði í einfeldni minni haldið að stjórnmálin snerust um að mismunandi flokkar hefðu ólíkar skoðanir á málum. Þegar kæmi að málamiðlunum þá væri það almennt gert við myndun ríkisstjórna eða mótun stjórnarfrumvarpa. Eiga kjósendur ekki að geta ekki treyst því hvaða stefnu þeir eru að kjósa í tilteknum málaflokkum? Er það ásættanlegt að þeir eru orðnir „regnhlíf margra skoðana?“.
Hvers vegna berjast stjórnmálamenn ekki frekar fyrir því af heilum hug að hér séu framleiddar og seldar íslenskar landbúnaðarvörur. Gæti það verið vegna þess að það er þægilegra að þagga niður í tiltölulega fámennum hópi bænda og skaða framleiðslufyrirtæki þeirra.
Erna Bjarnadóttir
Höfundur skipar 2. Sæti á lista Miðflokksins í komandi alþingiskosningum