-11.4 C
Selfoss

Misnotað hælisleitendakerfi

Vinsælast

Angela Merkel kanslari Þýskalands sagði fyrir nokkrum árum að fjölmenningarstefnan hafi brugðist. Undir það tók forseti Frakklands og forsætisráðherra Bretlands. Þau sögðu að hælisleitendur sem fá dvalarleyfi samlagist ekki gistiþjóðinni og verði þjóðarbrot innan þjóðarinnar, sem skapi síðan vandamál. Merkel bætti síðan við að útlendingar sem settust að í Þýskalandi þyrftu að tileinka sér ákveðin gildi og viðmið, læra þýsku og tryggja að konur þeirra á meðal nytu jafnréttis. Í Danmörku og Svíþjóð er hafið uppgjör við fjölmenningarstefnuna. Í júní í sumar var í fyrsta sinn í sænskri sögu samþykkt vantraust á forsætisráðherrann og er almennt talið að það eigi rætur til innflytjendamála. Ráðherrann viðurkenndi á blaðamannafundi að glæpagengi hafi hreiðrað um sig í landinu sem rekja mætti til mikils fjölda innflytjenda, sem komið hafi til landsins á undanförnum árum. Ísland verður að læra af reynslu þessara þjóða. Við eigum að stýra því sjálf hverjir koma hingað. Hælisleitendakerfið kostar skattgreiðendur 4,4 milljarða á þessu ári. Kostnaður við hvern hælisleitenda er um 6 milljónir á ári. Að sama skapi má benda á að ellilífeyrisþegi, sem fær tekjur sínar frá Tryggingastofnun, fær um 3,3 milljónir á ári.

Miðflokkurinn eini flokkurinn sem vill laga hælisleitendakerfið

Hælisleitendakerfið á Íslandi er óskilvirkt og misnotað, þess eru fjölmörg dæmi. Hingað kemur fólk sem á ekki rétt á hæli en dvelur hér mánuðum saman á kostnað skattgreiðenda. Miðflokkurinn hefur margsinnis bent á þetta á Alþingi en talað fyrir daufum eyrum. Í raun er stefna allra flokka á Alþingi nema Miðflokksins sú að fjölga hér hælisleitendum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekkert gert til að draga úr fjölda umsókna um hæli þrátt fyrir að hafa haft málaflokkinn á sinni könnu um árabil. Framsóknarflokkurinn lagði fram frumvarp á Alþingi í vetur sem hefði stóraukið fjölda hælisleitenda til Íslands.

Miðflokkurinn er eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur það á stefnuskrá sinni fyrir kosningarnar að laga hælisleitendakerfið og koma í veg fyrir misnotkun þess. Málið er brýnt eins og reynsla nágrannaþjóða okkar sýnir.

Birgir Þórarinsson

Höfundur er þingmaður og oddviti Miðflokksins í Suðurkjördæmi.

 

 

Nýjar fréttir