-5.8 C
Selfoss
Home Fréttir Fréttir Tryggjum Garðyrkjuskólann í Hveragerði

Tryggjum Garðyrkjuskólann í Hveragerði

0
Tryggjum Garðyrkjuskólann í Hveragerði
Hólmfríður Árnadóttir

Það ætti að vera fyrsta verk nýs ráðherra mennta- og menningarmála að tryggja starfsemi Garðyrkjuskólans á Reykjum, þessu fjöreggi þjóðarinnar og vöggu sérfræðiþekkingar í garðyrkju.

Ef við viljum efla grænan iðnað, halda áfram að stuðla að innlendri matvælaframleiðslu eins og ræktun á ávöxtum, grænmeti og matjurtum og efla skrúðgarðyrkju og skógrækt þá verður að halda utan um efla og styðja við garðyrkjuskólann og sérfræðiþekkingu starfsfólks.

Starfsfólk og umhverfi sem skilað hefur af sér fjölda garðyrkjufræðinga sem um land allt vinna að gróðurrækt og garðyrkju og stuðla þannig að kolefnisbindingu og draga úr kolefnissporum.

Þá er rétta skrefið að efla starfsemi skólans en ekki reiða honum banahöggið.

Garðyrkjuskólinn hefur starfað í rúm 80 ár og saga skólans ofin áræðni, nýsköpun, hugviti og hugsjónum. Námið byggir á styrkum stoðum með metnaðarfullu verklegu og bóklegu námi sem skilgreint er sem starfsmenntanám og á í raun hvorki heima á háskólastigi né í framhaldsskóla.

Skólinn er í raun einstakur og því mikilvægt að standa vörð um starfsemi hans og aðbúnað hér á Reykjum því á Suðurlandi höfum við kjöraðstæður til garðyrkju og matvælaframleiðslu sökum loftlags, jarðvarma og annarra landgæða.

Við þurfum á garðyrkjumenntuðu fólki að halda, ekki bara nú, heldur til framtíðar og þessi starfsgrein kemur sterk að því að draga úr loftlagsvá og styrkja stoðir innlendrar matvælaframleiðslu. Það eru gífurleg tækifæri fólgin í garðyrkju, hvort sem um ræðir ræktun skógarplantna, garðagróðurs og inniplantna, mótun og fegrun umhverfis eða matvælaframleiðslu. Látum ekki skammsýni verða skólanum að falli heldur hlúum að honum og eflum út frá grænni sýn. Náttúra Íslands og gróður er auðlind sem við verðum að standa vörð um og hlúa að þeim mannauði sem býr yfir sérfræðiþekkingu þar um.

 

Hólmfríður Árnadóttir, oddviti VG í Suðurkjördæmi.