-0.5 C
Selfoss

Eldri borgarar fjölmenna í heilsueflingu

Vinsælast

Almenn ánægja er með heilsuræktarnámskeið eldriborgara sem Sveitarfélagið Árborg stendur fyrir en um 70-80 manns hafa mætt á æfingarnar sem fara fram undir dyggri stjórn Berglindar Elíasdóttur. Námskeiðið er fyrir 60 ára og eldri og í samtali við Berglindi kemur fram að markmið námskeiðsins sé að viðhalda og efla heilsu fólks og gera einstaklinga sjálfbærari hvað varðar eigin heilsueflingu. „Með því að huga vel að þessu aukum við tímann þar sem fólk getur sjálft sinnt athöfnum dagslegs lífs og eru betur í stakk búin að takast á við lífið. Heilsa er líkamleg, andleg og félagsleg vellíðan og þarf að huga að öllum þessum þremur þáttum í heilsueflingu. Lögð verður áhersla á styrktarþjálfun á námskeiðinu sem er afar mikilvæg á þessum aldri til að bregðast við einkennum öldrunar á borð við vöðvarýrnun, beinþynningu o.fl.. Ásamt því verður þol, jafnvægi og lipurð þjálfuð.“

Mikið fjör að komast á svona námskeið

Í samtali við nokkra sem mættir voru á námskeiðið kom fram að það væri bæði gagnlegt, skemmtilegt og félagslega örvandi að mæta og gera saman æfingar í svo stórum hópi. Fjölþætt hreyfing, bætt heilsa og vellíðan voru þau atriði sem fólk dró helst fram þegar spurt var um gildi þess að mæta í hreyfingu sem þessa. Stemningin á svæðinu var mjög góð. Fólk hefur misjafna getu en hver og einn gerir æfingar í samræmi við það. Þegar spurt er hvort æfingarnar þyki erfiðar kveður við nei. Þær séu hæfilegar, en Berglind taki það sérstaklega fram að hver og einn geri það sem hann treysti sér til, en í lokin eru ávallt góðar teygjur.

Nýjar fréttir