3.4 C
Selfoss

Ökuland tekur nýjan kennslubíl í notkun

Vinsælast

Ökuskólinn Ökuland, hefur tekið í notkun nýjan og glæsilegan kennslu vörubíl. Bíllinn er af gerðinni Mercedes Benz Actros 1845. Þyngd ökutækisins er 11900 kg. Leyfð heildarþyngd er 18000kg. Í forsvari fyrir Ökuland eru Guðni Sveinn Theodórsson og Dýrfinna Sigurjónsdóttir ökukennarar.  Við slógum á þráðinn til Guðna Sveins, sem sést hefur á ferðinni með meiraprófsnemendur á nýja bílnum um Suðurland og víðar.

Hæstánægður með kennslubílinn

„Það er vissulega framþróun í ökutækjum af þessari stærðargráðu eins og smærri ökutækjum. Við í Ökulandi höfum að markmiði að bjóða nemendum okkar upp á það nýjasta og besta sem er í boði á hverjum tíma,“ segir Guðni Sveinn í samtali við blaðið. Bíllinn uppfyllir allar kröfur sem gerðar eru til kennslutækja af þessari tegund og Guðni Sveinn segir að allur helsti búnaður sé í bílnum sem nauðsynlegt sé að kunna á þegar komið er út í umferðina og á vinnumarkaðinn að námi loknu. „Svona tæki hafa sérhæfðan búnað, mótorbremsur, loftpúða, svokallaðan retarder og fleira sem nemendur læra á í kennslunni. Þá skiptir máli að útsýni úr bílnum sé gott og hann tiltölulega lipur í akstri, en þessi atriði eru til staðar í nýja bílnum.“

Mikill uppgangur í kennslunni

Aðspurður um hvort ekki sé mikið að gera í kennslunni á uppbyggingartímum segir Guðni: „Jú, við höfum ekki farið varhluta af því að bílstjóra vanti til vinnu í þeim framkvæmdum sem liggja fyrir á svæðinu. Það þarf að flytja efni og vörur til og frá.“ Guðni Sveinn hefur langa reynslu sem kennari á stærri ökutæki og við spyrjum hvað sé helst sem hann leggi áherslu á að nemendur viti þegar út í umferðina er komið. „Það er auðvitað afskaplega margt sem þarf að hafa á hreinu þegar ekið er stórum og smáum ökutækjum. Fyrst þarf að koma til góð þekking á ökutækinu sjálfu og auðvitað umferðarreglum sem um það gilda og almennt. Því er svo til að bæta við að nemendur þurfa að hafa haldgóða þekkingu á því hvernig skal ganga frá farmi á þeim ökutækjum sem þeir kunna að aka í framtíðinni. Þetta er allt saman hluti af námskránni fyrir aukin ökuréttindi og yfir þetta förum við rækilega,“ segir Guðni Sveinn.

Kröfur til bílstjóra stærri ökutækja meiri

Við ræðum um hvernig starfsaðstæður bílstjóra hafa breyst á umliðnum árum. „Það er vissulega svo að öll lagaumgjörð og þær reglur sem um akstur svona tækja gilda hafa tekið breytingum. Það hafa aukist kröfur til bæði búnaðar og kunnáttu. Þá fara atvinnubílstjórar í endurmenntun með vissu millibili. Við hjá Ökulandi höfum sinnt endurmenntun atvinnubílstjóra og höfum boðið hefðbundin námskeið sem hafa nú að mestu færst úr stofu yfir á netið. Við erum líka mjög meðvituð um að það þarf að auka vægi verklegrar endurmenntunar og þar býður nýi bíllinn upp á mikla möguleika. Þetta er komið til að vera og svona kröfur fara vaxandi frekar en hitt,“ segir Guðni Sveinn að lokum.

Nýjar fréttir