-6.3 C
Selfoss

Bókin stækkar við hvern lestur og er óvægin við lesandann

Vinsælast

Vanessa mín myrka eftir Kate Elizbeth Russell, í þýðingu Hörpu Rúnar Kristjánsdóttur hefur vakið verðskuldaða athygli lesenda. Bókin segir frá tveimur tímabilum í lífi Vanessu Wye. Annars vegar þegar hún kemst fjórtán ára gömul inn í virtan heimavistarskóla og á þar í eitruðu og vafasömu sambandi við kennara sem er þrefalt eldri en hún. Hins vegar sjáum við hana sautján árum síðar, í miðri fyrstu #metoo-bylgjunnar vestra, þar sem hún neyðist til þess að gera sambandið upp og horfast í augu við sjálfa sig og áhrifin sem það hefur haft á líf hennar.

Nú er bókin talsvert umdeild og var m.a. úthýst úr vinsælum bókaklúbbi vestan hafs. Hvað hvatti þig til að taka hana til þýðingar á íslensku? Það er bara eitthvað svo ómótstæðilegt við allt sem er umdeilt. Af hverju er það umdeilt? Hvað er svona hneykslanlegt. Að öllu gamni slepptu þá er þetta ein af þessum bókum sem mér finnst að þurfi að vera til í þýðingu. Hún talar beint inn í þjóðfélagsumræðuna í dag og snertir á málum sem er erfitt að koma sér að því að ræða. Ég vildi að hún gæti komið að notum fólki sem les sér ekki endilega til gagns á ensku.

Hvernig var að takast á við að þýða svona tilfinningalega erfiða bók? Það var gríðarleg áskorun og eitthvað sem ég áttaði mig ekki endilega á þegar ég tók verkið að mér. Bókin stækkar við hvern lestur og er óvægin við lesandann, sem er gert að setja sig í ómöguleg spor. Fyrir utan allan ljótleikann fyrir konu sem les helst aldrei glæpasögur, þá eru siðferðisspurningarnar í bókinni erfiðastar. Með hverjum á að halda þegar enginn er góður og enginn vondur?

Hvaða boðskap telur þú að bókin geti fært okkur inn í umræðuna í dag? Helsti kosturinn við hana er kannski að hún er ekki að reyna að koma boðskap á framfæri. Hún er að segja frá hlutunum eins og þeir eru, fjalla um misnotkun og eitruð ástarsambönd á mennskan hátt. Það er kannski það sem vantar oft í umræðuna í svona málum, þar sem við skipum okkur í fylkingar með og á móti þolendum og gerendum og látum oft vanhugsuð orð falla. Þessi bók gefur okkur tækifæri til að hugsa, skoða málin frá öllum hliðum og mynda okkur skoðanir í ímynduðu umhverfi. Þar er það nefnilega allt í lagi, annað en í raunveruleikanum.

Hvað finnst þér, eftir að hafa kafað djúpt í verkið, vera það markverðasta við bókina? Styrkurinn í þessu verki felst í því hvernig það neitar að taka afstöðu. Höfundur velur að segja þessa sögu frá sjónarhóli þolanda sem lítur ekki á sig sem slíkan. Þannig setur Russell undir svo marga leka í umræðunni og gefur fólki færi á að mynda sér eigin skoðun. Það markverðasta en óumdeilanlega líka það erfiðasta.

Er þetta kvennabók? Þetta er bók um kvennabyltingu en það gleymist gjarnan í umræðunni að svonalagað snertir karla líka. #metoo snýst ekki um öfga til að skerða frelsi karlmanna heldur miðar þessi umræða að bættu samfélagi fyrir allt fólk. Vanessa er innlegg í þessa umræðu sem snertir á ýmsum þáttum í menningunni sem stuðla að því að fólk geti farið yfir mörk hvers annars. Þetta er bók sem konur leggja frekar í en karlar ættu að hætta sér í.

Er þetta þitt fyrsta þýðingaverk og er von á fleirum? Reyndar þýddi ég, í samvinnu við Jón Magnús Arnarsson, aðra sjúka ástarsögu í fyrravetur, Rómeó og Júlíu eftir Shakespeare. Sú þýðing hljómar þessa dagana á stóra sviði Þjóðleikhússins og verður vonandi bráðum aðgengileg öllum. Svo erum við hjá Króníku að svipast um eftir annarri skáldsögu – helst styttri og léttari en Vanessu, svo kannski auglýsi ég hér með eftir bókmenntalegri ástarsögu sem þarf að íslenska. Allt sem ég geri snýst jú um ástarsögur.

 

Nýjar fréttir