-8.7 C
Selfoss

Heldur stofnanavæðing hálendisins áfram?

Vinsælast

Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnarinnar stóð: „Stofnaður verður þjóðgarður á miðhálendinu í samráði þverpólitískrar þingmannanefndar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sveitarfélaga, náttúruverndar- og útivistarsamtaka og annarra hagsmunaaðila.“ Enga fyrirvara var þar að finna þó ýmsir vilji nú svo láta í veðri vaka. Við tók ferli sem sætt hefur mikilli gagnrýni. Fulltrúi Miðflokksins í þverpólitískum undirbúningshópi sem vann skýrslu, sem sögð er vera grundvöllur málsins, sagði sig frá þeirri vinnu á lokametrum hennar. Honum þótti m.a. ekki tekið tillit til athugasemda hagaðila með forsvaranlegum hætti. Fjölmargir hafa einnig lýst því samráði sem umhverfisráðherra viðhafði sem sýndarsamráði. Með frumvarpinu voru boðaðar víðtækar breytingar m.a. að hefðbundin landnýting sem landsmenn hafa átt rétt til frá örófi alda, svo sem búfjárbeit, fuglaveiði og veiði í ám og vötnum, yrði sett undir reglugerðarvald eins ráðherra.

Bændasamtökin bentu réttilega á í umsögn sinni, að sveitarfélög hvers rekstrarsvæðis myndu eiga meirihluta fulltrúa í svokölluðu umhverfisráði. Hlutverk umhverfisráðs átti svo að vera að setja stjórnunar- og verndaráætlun fyrir hvert rekstrarsvæði. En stjórn hálendisþjóðgarðs átti ekki að vera bundin af tillögum umhverfisráða. Til að kóróna allt skyldi ráðherra svo hafa heimildir til að gera breytingar á áætlun umhverfisráðanna og breytingar átti hvorki að þurfa að bera undir stjórn hálendisþjóðgarðsins né umhverfisráðin sjálf. Umhverfisráðherra átti því að hafa visst einræði yfir stjórnkerfi þjóðgarðsins.

Af nefndaráliti meirihluta ríkisstjórnarinnar í Umhverfis- og samgöngunefnd sést glöggt við hverju er að búast ef Sjálfstæðisflokkurinn, Framsókn og Vinstri-grænir halda ríkisstjórnarsamstarfi sínu áfram. Þar segir: „Að þessu virtu leggur meirihlutinn til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og umhverfis- og auðlindaráðherra verði falið að leggja fram nýtt frumvarp um málið sem verði byggt á þeirri vinnu sem hér hefur verið rakin“

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn verða því engin fyrirstaða í vegferð Vinstri-grænna að stofnavæða hálendið. Miðflokkurinn hefur allt kjörtímabilið verið eina vörnin gegn þessum áformum.

Erna Bjarnadóttir

Skipar 2. sæti á lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi

 

Nýjar fréttir