-5.5 C
Selfoss

Uppskeruhátíð á Brimrót á Stokkseyri

Vinsælast

Dagana 4.- 5. september nk. verður haldin einskonar uppskeruhátíð á Brimróti sem hefur fengið nafnið Haustgildi. Dagskráin er frá 13 – 18 báða dagana, en ýmislegt spennandi verður að finna á Haustgildi Brimróts.

Menning og matvæli mætast á miðri leið

„Hugmyndin að uppskeruhátið eða einhverskonar uppskerufagnaði hefur verið með okkur á Brimrót alveg frá því við hófum starfsemi í lok árs 2019. Það var svo í samtali við Ólaf Rafnar hjá Árborg sem hugmyndin kviknaði að hafa menningarstarfsemi og listgeirann með og einblína ekki á matvæli og uppskeru á grænmeti. Úr varð þetta Haustgildi þar sem matvæli og menning mætast. Ekki vegna þess að þessi svið séu svo miklar andstæður heldur einmitt vegna þess að þau eiga svo margt sameiginlegt og það er svo frábær flóra af hvort tveggja í okkar nærumhverfi hér í Árborg og fjórðungnum. Líka vegna þess að haustið er svo fallegt árstíð og uppskeran tengir þessi svið saman. Haustsýningar tíðkuðust alltaf hér áður fyrr sem dæmi,“ segir Pétur Már Guðmundsson hjá Brimrót.

 

Ýmsir framleiðendur á svæðinu, bæði í list og mat

Aðspurður hvort fólk megi eiga von á að finna eitthvað spennandi á haustgildinu segir Pétur: „Það verða aðilar eins og Korngrís, Tariello, Ölvisholt, vegan súkkulaðiframleiðsla sem heitir NAMM. Þá verða ýmsir listamenn úr galleríunum á Stokkseyri. Svartiklettur, stokkur, Gussi og Gimli verða samhliða okkur á Brimrót.“

Munum eftir sóttvörnunum

Í samtali við Pétur kemur fram að þau hafi talið, eins og aðrir að með haustinu væri Covid liðin tíð. Það hafi þó ekki ræst að fullu, en ákveðið hafi verið, þrátt fyrir takmarkanir að halda hátíðina. „Við tökum vissulega Covid alvarlega og þær takmarkanir sem faraldurinn hefur lagt á samfélagið. Við verðum með spritt ásamt því að passa upp á pláss fyrir gesti. Þá biðlum við til gesta að njóta af ábyrgð,“ segir Pétur að lokum.

 

Nánar má sjá um viðburðinn hér

Nýjar fréttir