-5.5 C
Selfoss
Home Fréttir Þegar ég varð læs opnaðist algjörlega nýr heimur

Þegar ég varð læs opnaðist algjörlega nýr heimur

0
Þegar ég varð læs opnaðist algjörlega nýr heimur

Dagbjartur Sebastian Østerby fæddist í Reykjavík en ólst upp í Kaupmannahöfn þar sem foreldrar hans stunduðu nám en frá 11 ára aldri í Þorlákshöfn ásamt móður og yngri systur. Eftir að hafa dúxað frá Fjölbrautaskóla Suðurlands hélt hann sjálfur til náms í Kaupmannahöfn og nam þar eðlisfræði í tvö ár. Móðir hans lést svo fyrir aldur fram og lífið hefur síðan atvikast þannig að nú er hann í hagnýttri stærðfræði við HÍ og starfar hjá ÁTVR. Óhætt er að segja að hann sé mikill „nörd“ með áhuga á fjölbreyttum viðfangsefnum en hug hans allan hafa hjólreiðar.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Um þessar mundir er ég með nokkrar bækur á náttborðinu, þar á meðal The Italian Gentleman sem fjallar um hina ýmsu sjálfstæðu og rótgrónu klæðskera á Ítalíu, þeirra sögur og stíla eftir héruðum og sjálft handverk þeirra að baki sérsaumuðum jakkafötum, skyrtum, bindum, skóm o.s.frv. Einnig er ég með The Ultimate Guide To Homebrewing á náttborðinu sem fjallar um upprunu ýmissa bjórstíla, bruggaðferðir, hráefni og tæki og uppskriftir að bjórum úr öllum áttum. Erfitt er að segja hvað ráði vali mínu á bókum, þar sem ég hef mikinn áhuga á mörgu og fellur þá lestrarefnið oft á tíðum undir það og getur valið verið fremur handahófskennt. Annars kviknar oft áhugi á nýjum viðfangsefnum og erfitt að segja hvernig næsta lestrarefni verði. Að auki hef ég verið að lesa ævisögu Leonard Cohen og gaman að kynnast betur manninn á bakvið listamanninn og hans strögl og raunir í lífinu. En hann byrjaði jú feril sinn sem rithöfundur og ljóðaskáld. Bókina keypti ég á Kastrup flugvelli og hafði þá einmitt hlustað mikið á Cohen. Bókin veitti mér ágæta hugarró fyrir svefninn, þegar ég glímdi við svefnerfiðleika. Svo er ég með bók sem heitir Lobbying For Change en orðið lítið gengt í henni, en er þó spennandi lesning um það hvernig hægt sé að „lobbýa“ samfélag til góðs. Annað veifið hef ég líka reynt að glugga í Physical Biology Of The Cell, en það er eilítið þurrari lesning og takmarkað hversu mikla þolinmæði ég hef til að lesa hana. Bókin er tæpar þúsund blaðsíður í smáu letri og lítið annað en stærðfræðimál, eðlisfræði og líkindafræði fyrir hina ýmsu lífræðilegu ferla, en uppi eru blikur á lofti um að með stærðfræðina og eðlisfræðina að vopni megi gera stórar uppgötvanir á næstunni í líffræðinni og þannig hægt að skilja betur stór og flókin kerfi sem smærri kerfi mannslíkamans.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Ýmis fræðirit, ævintýrabækur, teiknimyndasögur, ævisögur og skáldskapur sem fjalla um margbreytileika lífsins. Spennusögur fanga ekki athyglina mína í dag. Ég les mér til gagns um hin ýmsu viðfangsefni, annað hvort á stafrænu formi eða bókum sem þá oftar en ekki fellur undir áhugasvið mitt. Sögur af lífi og fólki getur líka stundum gripið athygli mína og mannkynssaga. Raunveruleikinnn getur oftar en ekki verið magnaðri en allur skáldskapur.

Var lesið fyrir þig sem barn?

Þegar ég var ungur drengur þá var oft lesið fyrir mig við rúmgaflinn og yngri systur mína. En ég man að þegar ég varð læs opnaðist algjörlega nýr heimur. Auðvitað voru á ferðinni teiknimyndasögur af öllu tagi sem mér þótti spennandi, en einnig las ég bækur Enid Blyton um félagana fimm sem einmitt móðir mín heitin var svo hrifin af í æsku og Frank og Jóa. Einnig var ég satt að segja alltaf mjög hrifinn af sögunum af Tinna, Ástrík og Steinrík og Lukku Láka. En þessar bækur las ég mest á dönsku. Bróðir minn Ljónshjarta hafði líka mikil áhrif á mig þegar ég var ungur.

Hvernig lýsir þú lestrarvenjunum?

Óreglulegar. Gott að geta stokkið inn nánast hvar sem er og lesið stuttlega um eitthvað. Ef eitthvað grípur mig þó, þá get ég orðið límdur við lesturinn. Er ég les mér til yndisauka, er það oftast fyrir svefninn en annars er æðislegt að lesa á jólunum eða úti á svona góðviðrisdögum sem hafa verið hér upp á síðkastið í ágústmánuði.

Áttu þér uppáhaldshöfund?

Leonard Cohen, Bob Dylan, Nick Cave. Ég kann einfaldlega að meta tónlist þeirra og  textarnir frá þeim eru oft á tíðum mjög vel samdir. Annað veifið getur dottið í mig að fletta upp í þeim og lesa þá þar sem þeir geta verið einkar fallegir. Get þó varla sagt að ég eigi neina uppáhalds rithöfunda sem slíka þar sem góður skáldskapur getur komið úr ýmsum áttum. Bækurnar hans J.R.R. Tolkien eru þó í miklu uppáhaldi og Stephen Hawking hefur skrifað skemmtilegar bækur.

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Hmm… Það var líklegast Hobbitinn sem rændi mig síðast svefni, en það var í einu jólafríinu fyrir þó nokkrum árum síðan. Einnig hefur Góði Dátinn Svejk rænt mig svefni, en það var mestmegnis vegna þess að ég valdi hana sem kjörbók í 8. bekk og var hún í lengri kantinum á þeim tímapunkti og það átti víst að skila smá greinargerð og ég kominn í tímaþröng. Góð bók sem verðskuldar endurlestur.

Hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Skopsögur, jafnvel absúrdar skopsögur. Þær yrðu þá líklegast settar fram sem örsögur. Ég myndi þá fyrst og fremst skrifa þær vegna þess að ég hefði gaman af því og í rauninni algjörlega óþarft að aðrir fatti húmorinn. Best væri ef sögurnar væru bara sem allra skrítnastar. En ég væri þó sennilega líklegastur til að skrifa bók með brugguppskriftir að ýmsum spennandi bjórum einn daginn. Annars tel ég mig alls ekki líklegan til að skrifa bók sjálfur.

__________________________________

Umsjón: Jón Özur Snorrason