-10.6 C
Selfoss

Gleðin alltumlykjandi að fá að hitta samstarfsfólkið í eigin persónu

Vinsælast

Kennsla er um það bil að hefjast í skólum landsins. Margir bundu við það vonir að þetta haustið væri skólinn kominn í hefðbundinn gír og kórónuveirufaraldurinn í baksýnisspeglinum. Enn einn veturinn fara menntastofnanir inn í óvissuna. Í Menntaskólanum á Laugarvatni er fólk þó bjartsýnt og tilbúið í veturinn, en kennsla hófst 25. ágúst.

Stefna á að fara varlega af stað

Jóna Katrín Hilmarsdóttir, aðstoðarskólameistari ML segir veturinn leggjast vel í starfsfólkið. „Veturinn leggst vel í starfsfólkið og gleði alltumlykjandi að fá að hitta samstarfsfólkið í eigin persónu nú í upphafi annar. Okkar stefna hér í ML er að fara frekar varlega af stað og geta þá vonandi slakað á sóttvarnarráðstöfunum þegar fram líða stundir. T.a.m. verða nemendur að bera grímur í kennslustundum þó að leyfi sé fyrir því af hálfu stjórnvalda að slaka meira á en svo. Þessi ákvörðun er tekin m.a. með tilliti til undirliggjandi sjúkdóma og aðstæðna í nærumhverfi starfsfólks“

Leysa málin í félagslífinu í takt við sóttvarnir

Það er ekki hægt að líta fram hjá þeirri staðreynd að félagslíf nemenda hefur litast umtalsvert af sóttvarnarráðstöfunum í samfélaginu. Jóna Katrín segir það stefnuna að fresta helst engu og leysa málin og finna leiðir í takt við gildandi sóttvarnatakmarkanir. Skólinn og nemendafélagið Mímir eigi í náinni samvinnu. „Það gekk einstaklega vel síðastliðinn vetur en við vonum þó að þennan vetur takist okkur að framkvæma meira af því sem við ætlum okkur en seinasta skólaár. Það voru fjölmargar hugmyndir og áætlanir sem við lögðum mikla vinnu í með nemendum síðasta vetur sem síðan þurfti að sópa út af borðinu þegar breytingar urðu á sóttvarnarreglugerðum. Það kom mér á óvart æðruleysi og dugnaður unga fólksins sem mætti tilmælum stjórnvalda og skólastjórnenda af skilningi þrátt fyrir að öllum þætti þetta lýjandi og erfitt til lengdar.“

Stormurinn gengur yfir að lokum

Hvernig er stemningin í mannskapnum svona almennt m.t.t. ástandsins, sem við öll vonuðumst eftir að vera komin fyrir? „ Nú hefjum við þriðja skólaárið í skugga kórónuveiru og verulega er farið að reyna á mannskapinn, alls staðar í þjóðfélaginu. En við verðum að styðja hvert annað og við sem eldri erum ættum að minna unga fólkið, börnin okkar, á að þetta mun ganga yfir. Okkur líður ekki þannig þegar við erum stödd í storminum miðjum en allt mun þetta ganga yfir á endanum. Við þurfum öll að vanda okkur, sinna sóttvörnum og taka tillit til annarra og nýta þau tækifæri sem gefast til að gleðjast og vaxa,“ segir Jóna Katrín að lokum.

Nýjar fréttir